Stuðningsmenn Atletico Madrid hafa látið í sér heyra og vilja ekki sjá sóknarmanninn Cristiano Ronaldo hjá félaginu í vetur.
Stuðningsmannafélag Atletico sendi í gær frá sér yfirlýsingu og mótmælir því að félagið sé að íhuga að fá Ronaldo.
Atletico lék einnig æfingaleik í gær þar sem mátti sjá risastóran borða og á honum stóð: ‘CR7, ekki velkominn.’
Atletico hefur verið sterklega orðað við Ronaldo sem vill komast burt frá Manchester United og spila í Meistaradeildinni.
Ástæðan fyrir reiði stuðningsmanna Atletico er að sjálfsögðu sú staðreynd að Ronaldo lék í mörg ár með grönnunum í Real Madrid.
Margir hafa einnig látið heyra í sér á samskiptamiðlum og verður að segjast að það væri mikil áhætta fyrir félagið að semja við Portúgalann.