Zainab al-Hilli var sjö ára þegar þetta gerðist. Hún og fjögurra ára systir hennar, Zeena, voru á ferðalagi með foreldrum sínum og móðurömmu þegar þau voru skotin til bana 5. september 2012. Morðinginn skaut síðan reiðhjólamann til bana og flúði síðan af vettvangi, líklega á mótorhjóli.
Það voru aðeins Zainab og Zeena sem lifðu af.
Le Parisien segir að Zainab, sem nú er 16 ára, hafi gefið svo nákvæma skýrslu hjá lögreglunni að hún hafi nú öðlast nákvæmari mynd af hvað gerðist.
Fjölskyldan bjó í Lundúnum en var í fríi í Frakklandi og ók upp í Alpana til að njóta útsýnisins. Þau óku í BMW skutbíl. Fjölskyldufaðirinn Saad, 50 ára, eiginkona hans Iqbal, 47 ára, og móðir hennar Suhaila, 74 ára, og systurnar tvær.
Á fáförnu stæði lét morðinginn til skara skríða. Talið er líklegt að hann hafi á tæpum 90 sekúndum skotið 21 skoti úr gamalli 7,65 mm Lugerskammbyssu.
Saad var skotinn í ennið og féll yfir stýrið. Tengdamóðir hans var í aftursætinu og var einnig skotin í höfuðið. Iqbal lést einnig í aftursætinu.
Le Parisien segir að samkvæmt því sem kemur fram í yfirheyrsluskýrslum yfir Zainab hafi hún verið að stíga út úr bílnum með föður sínum þegar hún sá reiðhjólamann. Síðan heyrði hún skot. Foreldrar hennar reyndu þá að koma henni aftur inn í bílinn en það tókst ekki áður en maður greip hana aftan frá.
Hún hélt í fyrstu að þetta væri faðir hennar en sá síðan hvíta húð mannsins og áttaði sig á að þetta gæti ekki verið faðir hennar. Maðurinn var í leðurjakka og síðbuxum.
Zainab fékk skot í öxlina og var síðan slegin í höfuðið með byssuskeftinu. Talið er að morðinginn hafi orðið uppiskroppa með skot og það hafi orðið henni til lífs. En áður en hann varð uppiskroppa með skot, skaut hann Sylvain Mollier, reiðhjólamann.
Það var breskur reiðhjólamaður sem kom fyrstur á vettvang og fann Zainab illa særða. Ekkert símasamband var á vettvangi og því lagði hann Zainab í læsta hliðarlegu og hjólaði síðan niður fjallið til að sækja hjálp.
Eftir átta klukkustunda vettvangsrannsókn hófst lögreglan handa við að fjarlægja líkin. Þá fannst Zeena sem hafði falið sig undir kjól móður sinnar fyrir framan aftursætið. Hún var ómeidd en í miklu áfalli.
Allt frá þessum degi hefur fólk velt fyrir sér hver hafi verið skotmark morðingjans – fjölskyldan eða Sylvain Mollier? Og ekki síður: Af hverju?
Að Zaid, bróðir Saad, hafi staðið á bak við morðin vegna deilna um arf.
Að Saad hafi tengst iðnaðarnjósnum en hann starfaði hjá tæknifyrirtæki.
Að óþekkt tengsl Saad við Írak hafi verið ástæðan.
Að Sylvain Mollier hafi verið skotmarkið vegna fjölskyldudeilna.
Að klikkaður maður hafi verið að verki og að tilviljun hafi ráðið því hver fórnarlömb hans urðu.
Því hefur verið haldið fram að morðinginn geti verið allt frá því að vera geðsjúkur maður til þess að vera leigumorðingi.
Einnig hafa enn ótrúlegri kenningar komið fram eins og DV fjallaði um:
Lögreglan hefur yfirheyrt mikinn fjölda fólks í Frakklandi og utan Frakklands og einnig hafa nokkrir verið handteknir vegna rannsóknarinnar.
Handataka vegna dularfullu morðanna í Frönsku Ölpunum fyrir 10 árum
Þrátt fyrir mikla rannsóknarvinnu frönsku lögreglunnar og aðstoð frá 14 löndum hefur ekki tekist að leysa málið. Þrír lögreglumenn vinna enn að rannsókn þess.