Skotið var á Brynjar Níelsson, aðstoðarmann dómsmálaráðherra, úr mörgum áttum í gær en hann átti í deilum við bæði lögfræðinginn Svein Andra Sveinsson, rithöfundinn Andra Snæ Magnason auk þess sem fjölmiðlamaðurinn Gísli Marteinn Baldursson skarst í leikinn. Deilur Brynjars og Sveins Andra snérust um fund sem Brynjar átti með saksóknara Namíbíu í dómsmálaráðuneytinu.
Deilur Brynjars og Andra snérust um loftlagsmál en Brynjar hafði sakað rithöfundinn um að vera með „fasísk sjónarmið“ því Andri hafði velt því fyrir sér hvers vegna enginn á Morgunblaðinu kippir sér upp við Staksteina blaðsins. Í Staksteinunum sem um ræðir var vitnað í pistil Pál Vilhjálmssonar þar sem hann viðrar skoðanir sínar á loftslagsmálunum en hann hefur ekki trú á því að í óefni stefni af mannavöldum.
Gísli Marteinn blandaði sér svo í deilur Brynjars og Andra en fjölmiðlamaðurinn ýjaði að því að Brynjar væri hræsnari þegar hann segir sjónarmið Andra vera fasísk.
Nú hefur Brynjar slegið frá sér en það gerir hann með færslu sem hann birti á Facebook-síðu sinni í dag. Í færslunni beinir Brynjar spjótum sínum helst að Gísla Marteini en Sveinn Andri fær svo sinn skerf af skotum Brynjars undir lokinn. „Sjónvarpsmaðurinn síkáti sendi mér pillu á miðli frjálslynda og víðsýna fólksins, sem einkum berst fyrir þöggun og útilokun þeirra sem eru ósammála þeim. Svona getur tilveran verið mótsagnakennd,“ segir Brynjar í upphafi færslunnar en miðillinn sem um ræðir er samfélagsmiðillinn Twitter.
„Glaðlynda sjónvarpsmanninum finnst skrítið að ég hafi ýjað að fasískri hegðun rithöfundar úti í bæ, sem vildi að starfsmenn Moggans beittu þöggunar – og útilokunaraðgerðum vegna viðhorfs ritstórans í loftslagsmálum, þar sem ég hafi greitt atkvæði gegn síðasta þungunarrofsfrumvarpi, vildi vísa 300 manns af landinu og nýja innflytjenda löggjöf og vildi þar að auki valdefla lögregluna.“
Brynjar segir þá að fasismi sé „fyrst og fremst hegðun“ og sakar Gísla um að átta sig ekki á því. „Skoðanir um þungunarrof hafa ekkert með fasisma að gera. Það er ekki fasísk skoðun að þegar fóstur er orðið að barni í móðurkviði hafi það einhvern rétt. Að vísa fólki úr landi sem hefur lögum samkvæmt ekki heimild til að vera er ekki fasismi eða breytingar á lögum um útlendinga í samræmi við lög í evrópulöndum. Að veita lögreglu svipaðar heimildir og í öðrum löndum til að framfylgja lögum og koma í veg fyrir skipulagða glæpastarfsemi er ekki fasismi,“ segir Brynjar svo. Rétt er að benda áhugafólki á skilgreiningu Vísindavefsins á fasisma.
Brynjar segir því næst í færslunni að fasismi sé ekki bara hegðun og hugarfar. „Til er fasísk hugmyndafræði sem tekur úr sambandi réttindi borgaranna gagnvart yfirvöldum. Við erum hins vegar með stjórnarskrá sem verndar þau réttindi,“ segir hann.
„Við þurfum því ekki að hafa áhyggjur að því og áhyggjur mínar beinast að fasískri hegðun margra í frjálsa samfélaginu, einkum þeirra sem reyna að selja sig sem frjálslynda og víðsýna. Þar eru mest áberandi elítuliðið úr fjölmiðlum og lista-og menningargeiranum sem finnst það sjálfsögð réttindi þeirra að skattgreiðendur tryggi afkomu þeirra. Gott ef það eru ekki mannréttindi.“
Undir lok færslunnar segir Brynjar að Gísli Marteinn, eða „ofurhressi sjónvarpsmaðurinn“ eins og hann kallar hann þá, sé ekki ólíkur „stjörnulögmanninum eina sanna“ og á þar við Svein Andra. „Voru báðir virkir í Sjálfstæðisflokknum en þegar þeim var hafnað í prófkjöri brast út einhver heift sem bara magnast með árunum. Þeir urðu allt í einu svo gáfaðir og réttsýnir. Um það er hins vegar talsverður ágreiningur,“ segir Brynjar.
„Það er ljóst að við sjónvarpsmaðurinn hressi eigum bara eitt sameiginlegt en það er við erum alltaf jafn unglegir í útliti. Það sama verður ekki sagt um stjörnulögmanninn.“
Að lokum segir Brynjar að það felist mikið frelsi í því að geta „fjasað ábyrgðarlaust í góða veðrinu“ en Brynjar er þessa stundina staddur í sólinni í Mallorca.
„Það er mikið frelsi að geta fjasað ábyrgðarlaust í góða veðrinu í Miðjarðarhafi á launum frá skattgreiðendum meðan vinnulúnir rithöfundar og sjónvarpsmenn híma heima í kuldanum með kvíða yfir því að þeir muni stikna úr hita innan fárra ára.“