Viktor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands, hélt um helgina ræðu í Rúmeníu þar sem hann fordæmdi blöndun kynþátta. Stjórnarandstöðuleiðtoginn Ferenc Gyurcsány lýsti málflutningi forsætisráðherrans sem harmleik og kallaði hana nasistaáróður. „Mitt blóð er ekki annars eðlis en neins annars blóð,“ skrifaði Gyurcsány í færslu á Facebook.
Orbán flutti ræðuna á laugardaginn og sagði í henni meðal annars að lönd þar sem Evrópubúar blandast fólki utan Evrópu væru „ekki lengur þjóðir: þau eru ekkert meira en samansafn fólks. Í Karpatadældinni erum við ekki blönduð.“ Hann hélt áfram: „Við blöndumst hver öðru, en við viljum ekki verða að blönduðum þjóðum.“ Hann sagði að blöndun kynþátta hefði í för með sér áratugi af óvissu og stríði sem og hruni vestursins, samkvæmt Guardian.
Utanríkisráðherra Rúmeníu Bogdan Aurescu sagði í gær að Rúmenar væru andvígir þessum óboðlega málflutningi og hörmuðu að slík orð skuli falla í Rúmeníu. Samfélag Gyðinga í Ungverjalandi hefur krafist fundar með Orbán. Orbán hefur áður verið staðinn að fasískri og andsemitískri orðræðu og hefur einnig verið ásakaður um að draga úr fjölmiðla- og dómstólafrelsi í Ungverjalandi. Staða hinsegin fólks í Ungverjalandi hefur líka versnað töluvert í embættistíð Orbáns og flokksbræðra hans undanfarin ár.