Brian Vad Mathiesen, prófessor í orkuskipulagningu við Álaborgarháskóla í Danmörku, sagði í samtali við Ekstra Bladet að nú sé kominn tími til að ESB grípi til aðgerða. Óvissan tengd gasflutningum frá Rússlandi sé allt of mikil.
Hann sagði að grípa verði til aðgerða vegna þess hversu óörugg orkuafhendingin frá Rússlandi er og gleðjast ef eitthvað gas berst en um leið vera undir það búið að skrúfað verði alveg fyrir gasið.
Gazprom, rússneska ríkisgasfyrirtækið, tilkynnti í gær um skert flæði um Nord Stream 1 vegna viðhaldsvinnu. Segir fyrirtækið að streymið verði um 20% af flutningsgetu leiðslunnar en nú er það um 40% en dregið var úr flæðinu í júní vegna skorts á varahlutum að sögn Gazprom. Þýsk stjórnvöld segja hins vegar að engin skortur sé á varahlutum og engar tæknilegar ástæður fyrir því að streymið er skert.
Gazprom hefur ekki sagt neitt til um hvenær streymið á að vera komið í fyrra horf.
Mathiesen sagðist telja að Rússar séu að beita Evrópu þrýstingi með þessu en um 40% af gasinnflutningi álfunnar er frá Rússlandi. Hann sagðist ekki telja að streymið um Nord Stream 1 fari í gang aftur af alvöru. Nú verði ESB að taka af skarið.
Með 20% streymi sé ekki hægt að fylla gasgeymslurnar fyrir veturinn og það þurfi því að taka erfiðar ákvarðanir til að hægt sé að komast í gegnum næsta vetur á skynsamlegan hátt.