Eldurinn kom upp á föstudaginn og enn hefur ekki tekist að ná tökum á honum. Í gærmorgun, að staðartíma, náði hann yfir svæði á stærð við hálfa Parísarborg. Yfirvöld segja eldinn „sprengifiman“. Hann kviknaði í kjölfar methita og þurrka. Ekki er vitað hvað kveikti hann en verið er að rannsaka það.
Þyrlur og jarðýtur hafa verið notaðar í baráttunni við eldinn og um 2.000 slökkviliðsmenn berjast við hann. Mörg hús hafa orðið eldinum að bráð og rúmlega 6.000 manns hafa þurft að yfirgefa heimili sín og mörg þúsund manns bíða eftir að þurfa hugsanlega að yfirgefa heimili sín.
Gavin Newsom, ríkisstjóri, lýsti í gær yfir neyðarástandi í Mariposa en þar nær skógareldurinn nú yfir rúmlega 63 ferkílómetra svæði.
Yfirvöld segja að hitinn á svæðinu hafi verið um 40 gráður síðustu daga og því hafi eldurinn breiðst út með ógnarhraða.