Grímur Már Þórólfsson lögmaður vann í vor dómsmál gegn flugfélaginu Wizz air og er með lögmann í Búdapest sem er að reyna að innheimta kröfuna. Málið varðar flug til Rómar síðasta sumar sem Wizz air felldi niður með um þriggja klukkustunda fyrirvara og án skýringa. Grími hefur ekki tekist að fá Wizz air til að endurgreiða honum fargjaldið (auk skaðabóta) og vekur langvarandi svaraleysi flugfélagsins undrun. Grímur er gagnrýninn á framgöngu Samgöngustofu í málinu sem hann segir hafa dregið lappirnar og verið ótrúlega seina til að gefa út ákvörðun um að Wizz air eigi að greiða honum lögbundnar skaðabætur.
„Við vorum bara að klæða okkur í fötin og að fara að leggja af stað á flugvöllinn þegar við fengum sms um að fluginu hefði verið aflýst,“ segir Grímur og rifjar upp að þetta hafi átt að vera fyrsta flug Wizz air frá Íslandi til Rómar og félagið hefði einmitt verið að kynna Rómarflug fyrir Íslendingum. Samt sem áður hefði fyrstu ferðinni verið aflýst án nokkurra skýringa.
„Við þekkjum rétt okkar þar sem ég er lögmaður og konan mín vann hjá Icelandair og vissum að við hefðum rétt á því að Wizz air kæmi okkur í annað flug okkur að kostnaðarlausu. Þeir hafa skyldu til að koma manni á áfangastað eftir þeim leiðum sem tiltækar eru, ef ástæður á borð við veður eru ekki að baki aflýstu flugi. Við sáum að hægt var að setja okkur á annað flug og hringdum því í Wizz air. Sá sem svaraði sagði bara þvert nei, hlustaði ekkert á okkar röksemdir, sagði bara að þetta væri ekki í boði en við gætum stofnað kröfu hjá þeim til endurgreiðslu.“
Svo fór að ferðin til Rómar datt upp fyrir, um var að ræða helgarferð og aðrir kostir sem voru í boði voru einfaldlega of dýrir. Sagan af samskiptum eða samskiptaleysi Gríms við Wizz air var hins vegar bara rétt að hefjast:
„Við fórum inn á heimasíðuna þeirra og stofnuðum endurgreiðslukröfu. Samkvæmt Evrópureglum hafa þeir sjö daga til að endurgreiða okkur en það gerist reyndar aldrei, flugfélögin þurfa alltaf lengri tíma til að greiða þessar kröfur og ég var tilbúinn að gefa þeim lengri frest,“ segir Grímur. Það sem tók hins vegar við var algjört svaraleysi hjá Wizz air og skipti þá engu máli hver hafði samband. Grímur segir að vaninn sé sá að flugfélög greiði endurgreiðslukröfu ef hún berst í formi kröfubréfs frá lögmanni. Wizz air hunsaði hins vegar slíkt bréf sem og öll önnur boð í málinu.
„Þegar fresturinn var liðinn sendi ég þeim kröfubréf á ensku. Fékk ekkert svar en fæ tölvupóst frá þeim um að inneignin mín sé klár. Ég svaraði þeim því að ég hefði engan áhuga á inneign en ítrekaði kröfuna sem ég var búinn að senda þeim. Þeir svöruðu því aldrei.“
Allt flug til og frá landinu heyrir undir Samgöngustofu. Til er formlegur farvegur hjá stofnuninni fyrir mál af þessu tagi en Grímur segir að aðkoma Samgöngustofu að málinu hafi verið gagnslaus.
„Ég ákvað fyrst að gera þetta í gegnum Samgöngustofu því ég vissi að það væri dýrt fyrir mig að fara í mál við þá sjálfur, það þarf t.d. að þýða öll skjöl yfir á ungversku,“ segir Grímur en Wizz air er með höfuðstöðvar í Ungverjalandi. „Samgöngustofa sagði mér að koma endilega með málið til þeirra því ef þeir segðu þeim að borga þá myndu þeir borga. Þannig að ég kærði þetta til Samgöngstofu. En það gerðist ekkert. Wizz air svaraði ekki Samgöngustofu. Viðskiptamódelið hjá þeim virðist vera að gefa skít í kúnnann og ég skil ekki hvernig það viðskiptamódel getur gengið upp til lengdar.“
Stjórnvaldsaðgerð Samgöngustofu í máli af þessu tagi er einfaldlega kölluð „ákvörðun“ og Grímur beið lengi eftir því að Samgöngustofa gæfi út þá formlegu ákvörðun í máli hans að Wizz air bæri að greiða honum kröfu hans. En Grímur segir að Samgöngustofa hafi eytt mánuðum í að senda pósta til Wizz air og grátbiðja félagið um að standa við skuldbindingar sínar, en hafi engin svör fengið.
Í janúar á þessu ári tjáði Samgöngustofa honum að þeir væru að fara að gefa út ákvörðun í málinu. Það dróst hins vegar enn og í millitíðinni barst loks innihaldsrýrt svar frá Wizz air: „Þeir svöruðu með reply á póst frá Samgöngustofu og höfðu mig í cc. Þá sá ég alla rununa af póstum frá Samgöngustofu til þeirra þar sem Samgöngustofa var að grátbiðja þá um að borga mér kröfuna. Þetta félag er líklega næststærst í flugi hér á landi, næst á eftir Icelandair, ef horft er á fjölda flugferða til og frá landinu. Þess vegna finnst mér ótrúlegt að Samgöngustofa geti ekki beitt þá viðurlögum.“
Hægt er að stefna flugfélögum sem fljúga til eða frá Íslandi til dóms hér á landi og svo fór að Grímur stefndi Wizz air fyrir dóm. Hann þurfti að láta þýða stefnuna yfir á ungversku og hún var síðan birt félaginu í Búdapest. En Wizz air svaraði stefnunni engu og féll þá útivistardómur í málinu, sem er þannig að dómari einfaldlega áritar stefnuna og hún verður að dómi.
„En þá var eftir að innheimta en þarna var ég kominn með aðfararhæfa kröfu, en Wizz air hefur ekki svarað henni frekar en öðru. Ég er því með lögmann í Búdapest sem er að reyna að innheimta kröfuna. Þannig að ekki einu sinni lögmaður í Búdapest getur náð sambandi við þá.“
Segir Grímur að næst sé þá á dagskrá hjá sér sé að gera fjárnám hjá félaginu en dómurinn færir honum rétt til þess ef Wizz air greiðir ekki það sem félagið hefur verið dæmt til. Grímur segir raunar að honum finnist Wizz air haga sér eins og lítið gjaldþrota verktakafyrirtæki þegar raunveruleikinn er sá að þeir fljúga ótalmargar flugferðir á hverjum degi og hafa nýlega tilkynnt um væntanleg flugvélakaup.
Eftir þessa ótrúlegu reynslu ákvað Grímur að taka til við að aðstoða með kerfisbundnum hætti þá sem lenda í hremmingum vegna aflýstra flugferða. Hefur hann, ásamt kollega sínum, Hilmari Garðari Þorsteinssyni, opnað vefsíðuna flugrettur.is þar sem haldið er utan um mál af þessu tagi og flugfarþegar aðstoðaðir við að sækja sér bætur í þeim tilvikum þegar flugi hefur verið seinkað eða því aflýst.