Margrét Kristjánsdóttir var á göngu með tvo sjö mánaða hvolpa sína á Hólmsheiði í gær er maður á fjórhjóli keyrði næstum á hvolpana. Margrét segir að maðurinn hafi reynt að keyra á hundana sína sem og annan hvolp sem var einnig staddur á heiðinni í gær. Í samtali við Mannlíf, sem greindi frá málinu, segist Margrét vera „drulluslegin“ eftir atvikið.
„Þessi fáviti reyndi að keyra á hundana mína og annan hvolp á Hólmsheiðinni. Manneskja sem var með mér steig fyrir hjólið og bauð honum að keyra frekar á sig en hundana,“ sagði Margrét í Facebook-færslu sem hún birti í gær. „Hann gat ekki beðið eftir því að við gætum sett taumana á hundana, heldur flautaði og keyrði áfram. Fávitinn æsti sig mjög og heimtaði nafnið á manneskjunni, sem hún gaf fúslega og þá byrjaði ég að taka hann upp.“
Margrét birti myndbandið sem hún tók af manninum með færslunni en í því sést hvernig maðurinn veitist að henni og rífur af henni símann. „Eins og sést þá stígur fávitinn af hjólinu, ógnar mér og rífur af mér símann og grýtir í jörðina. Okkur var öllum brugðið og ég kallaði til lögreglu, sem var fljót á staðinn. Við náðum númerinu á hjólinu en ef einhver þekkir þennan fávita má sá hinn sami senda mér skilaboð,“ segir Margrét og hvetur fólk til þess að deila færslunni áfram.
Í samtali sínu við Mannlíf segir Margrét að göngufélagi hennar óttist að maðurinn muni hafa upp á þeim þar sem hann var afar ólmur í að fá persónuupplýsingar þeirra. Þá segir Margrét að eftir að hún birti færsluna hafi tveir einstaklingar sett sig í samband við hana sem segjast hafa einnig lent í þessum manni á fjórhjólinu. Hún vonast eftir því að lögreglan geri eitthvað í málinu.
Færsluna sem Margrét birti má sjá hér fyrir neðan: