Everton er tilbúið að selja Dele Alli aðeins sex mánuðum eftir að hann gekk í raðir félagsins frá Tottenham.
Það eru ensk götublöð sem greina frá þessu í dag en Alli hefur ekki náð að heilla á Goodison Park síðan hann kom frá London.
Alli kom til Everton á frjálsri sölu í janúar en hann spilaði aðeins 11 leiki fyrir liðið og stóðst ekki væntingar í Liverpool.
Ef Alli spilar 20 leiki fyrir Everton þarf félagið að borga 10 milljónir punda fyrir miðjumanninn og gæti upphæðin að lokum endað í allt að 40 milljónum.
Frank Lampart, stjóri Everton, ku vera opinn fyrir því að losna við enska landsliðsmanninn sem hefur verið í mikilli lægð undanfarin ár.