Thomas Tuchel, stjóri Chelsea, hefur staðfest það að Cesar Azpilicueta sé að leitast eftir því að yfirgefa enska félagið í sumar.
Azpilicueta vill komast til Barcelona á Spáni en Börsungar hafa reynt mikið til að semja við varnarmanninn í sumar.
Tuchel vill hins vegar alls ekki losna við fyrirliða sinn og gæti reynt að halda leikmanninum í eitt ár til viðbótar áður en samningur hans rennur út.
,,Þetta er mjög erfið spurning því ég er ekki viss um að ég vilji gefa Azpi það sem hann vill,“ sagði Tuchel.
,,Á einhverjum tímapunkti snýst þetta um það sem við viljum. Ég ber þetta saman við um hversu hart við börðumst um að fá Kalidou Koulibaly sem er landsliðsmaður og er á svipuðum aldri.“
,,Hann var mikilvægur leikmaður fyrir Napoli en við erum með spænskan landsliðsmann sem er fyrirliði Chelsea og ég horfi á hann í sama flokki en Barcelona gerir það ekki. Ég er ekki viss um að ég vilji verða að ósk hans þar sem hann er stór leikmaður fyrir okkur.“