Banaslys varð við Hvalfjarðargöngin í gær þegar miðaldra maður, á flótta undan lögreglu, klessti harkalega á og velti bíl sínum. Þetta er fullyrt í frétt Mannlífs í morgun.
Fréttablaðið greindi frá slysinu í gærkvöldi en þá var ekki vitað um ástand mannsins. Í fréttinni var haft eftir eiginmanni sjónarvotts að ökumaðurinn hafi verið á flótta undan lögreglu og ekið mjög óvarlega. Hann hafi lent í árekstri og bifreiðin tekist á loft og svo oltið. „Í þokkabót þá kastaðist maðurinn út úr bílnum á meðan hann var í loftinu. Alveg einhverja tíu metra,“ hefur Fréttablaðið eftir viðmælanda sínum.
Í fréttinni kemur fram að sjúkraflutningamaður hafi verið um borð í rútu sem kom aðvífandi og sá hafi hlaupið út, þegar rútan stöðvaðist, og veitt manninum aðhlynningu þegar í stað.
Uppfært kl.11.20: Lögreglan á Vesturlandi hefur sent frá sér tilkynningu á Facebook-síðu sinni vegna málsins. Hún hljóðar svo:
Um kl. 19:00 föstudaginn 22. júlí barst lögreglu tilkynning frá vegfarendum um rásandi aksturlag bifreiðar í Hvalfjarðargöngunum á leið vestur. Lögreglumenn á Vesturlandi fóru frá Akranesi í átt að göngunum til þess að kanna með ökumann þessa ökutækis. Á leið sinni að Hvalfjarðargöngum mættu þeir bifreiðinni á Akrafjallsvegi. Lögreglumenn snéru við og hugðust stöðva akstur ökumanns og kanna ástand hans en þá hafði hann sýnilega þegar aukið ferðina verulaga og langur vegur á milli bifreiðar hans og lögreglumanna. Ökumaður ók siðan fram úr strætisvagni á ógnarhraða að sögn vitna og fyrir framan strætisvagninn á miðjum Akrafjallsvegi virðist ökumaður hafa misst stjórn á bifreiðinni og hafnaði utan vegar. Bifreiðin fór nokkarar veltur að sögn vitna í strætisvagninum og virðist sem ökumaður hafi kastast út úr bifreiðinni við það. Endurlífgun lögreglu og sjúkraliðs sem kom á vettvang bar ekki árangur.