Tyrone Prades, 46 ára breskur fjölskyldufaðir, ákvað að kaupa sér snarl, skinkuloku (e. ham roll) á sölubás á jólamarkaði í Birmingham árið 2017. Hann veiktist í kjölfarið og hefur síðastliðinn fimm ár leyst vind ótt og títt. Daily Mail greinir frá því að Prades hafi nú ákveðið að höfða mál gagnvart rekstraraðila jólamarkaðarsins og krefst 200 þúsund punda, rúmlega 32 milljóna króna, í skaðbætur.
Skömmu eftir að Prades borðaði hinn örlagaríka skyndibita fékk hann heiftarlegan magaverk og í kjölfarið mikinn hita auk uppkasta og niðurgangs. Hann var greindur með salmónellusýkingu og var rúmliggjandi í fimm vikur. Raunum Prades lauk þó ekki þar, eftir að hann náði bata hefur hann leyst vind í gríð og erg sem hefur valdið honum miklum óþægindum í atvinnu- og einkalífi.
Forsvarsmenn jólamarkaðarins hafa viðurkennt að í kjölfar atviksins hafi fundist E.colí-baktería á hníf í bássnum og í kjölfarið hafi svæðið allt verið djúphreinsað. Hins vegar sé með öllu ósannað að Prades hafi orðið fyrir salmónellusmitinu á jólamarkaðinum.
Réttarhöld í málinu standa yfir en í framsögu sinni sagði lögmaður Prades að hann upplifði mikla skömm vegna vandamálsins sem truflaði meðal annars nætursvefn hans.