Raheem Sterling er ekki goðsögn hjá Manchester City að sögn Pablo Zabaleta, fyrrum leikmanns liðsins.
Zabaleta er sjálfur talinn vera goðsögn í sögu Man City en Sterling spilaði með liðinu frá 2015 til ársins 2022.
Í sumar samdi Sterling við Chelsea og eins góður og hann var þá mun hann ekki flokkast sem goðsögn.
,,Ég tel að orðið ‘goðsögn’ sé of mikið notað í fótboltanum,“ sagði Zabaleta um Sterling.
,,Hann hefur gert mjög góða hluti með liðinu. Hann kom ungur til Manchester og stóð sig frábærlega.“
,,Þegar ég tala um goðsagnir eru það hins vegar Sergio Aguero, David Silva og Vincent Kompany, þessir leikmenn voru í öðrum gæðaflokki. Þess vegna eru styttur af þeim fyrir utan völlinn.“