Borja Iglesias, leikmaður Real Betis, íhugar að byrja fjáröflun til að koma Hector Bellerin til félagsins frá Arsenal.
Iglesias greinir sjálfur frá þessu en Bellerin spilaði með Betis á láni á síðustu leiktíð og vill ganga aftur í raðir félagsins.
Útlit er þó fyrir að Betis geti ekki borgað uppgefið verð fyrir Bellerin sem er 27 ára gamall bakvörður.
,,Já, ég sakna Hector Bellerin. Ég er að íhuga að fara af stað með fjáröflun til að koma honum aftur hingað,“ sagði Iglesias.
,,Ég klára æfingar og fólk spyr mig hvort Bellerin sé á leiðinni, þau segja mér að þau séu að safna upp til að hjálpa félaginu að fá hann aftur.“
,,Bellerin vill mikið koma aftur, hann hefur alltaf sagst vilja spila hér en hann hefur verið lengi hjá Arsenal. Þetta er erfið staða því hann er samningsbundinn.“