Sóknarmaðurinn Antony er ekki á förum frá Ajax í sumar samkvæmt þjálfara liðsins, Alfred Schreuder.
Antony hefur verið sterklega orðaður við Manchester United en Schrueder er staðráðinn í því að hann verði ekki seldur í sumar.
Antony mun leika með Ajax næsta vetur miðað við þessi ummæli en verður líklega fáanlegur sumarið 2023.
,,Óttast ég það að Antony gæti farið? Nei, alls ekki,“ sagði Schreuder í samtali við ESPN.
,,Ég held að hann verði hér áfram. Auðvitað höfum við selt marga leikmenn í sumar en það hefur ekki verið venjan undanfarin ár.“
,,Ég býst ekki við að annar leikmaður sé á förum. Það væri slæmt fyrir okkur ef annar byrjunarliðsmaður færi annað.“