Í frétt sem DV birti á föstudagsmorgun, þar sem greint var frá að eitrað hafi verið fyrir hundum í Kársneshverfi í Kópavogi, er ranglega haldið fram að eigandi hundanna hafi fullyrt að eitrunin stafaði af rottueitri. Ekki náðist samband við eiganda hundanna við vinnslu þessarar fréttar en fréttinni hefur verið eytt.
Íbúi á Sunnubraut varð fyrir því að eitrað var fyrir þremur hundum hennar. Í umræðum um málið í Facebook-hópi voru uppi vangaveltur um að eitrunin gæti tengst aðgerðum þjónustudeildar Kópavogsbæjar við að eitra fyrir rottum í holræsum. Hefur eigandi hundanna nú komið því á framfæri að þær vangaveltur ættu ekki við rök að styðjast þar sem eitrunareinkenni hundanna komu fram fyrir aðgerðir Kópavogsbæjar og væru auk þess ekki í samræmi við einkenni af rottueitri.
Kópavogsbær birti auk þess tilkynningu í Facebook-hópnum þar sem staðhæft var að vegna strangra öryggisráðstafana við meðferð eitursins væri útilokað að eitrið sem hundarnir tóku inn ætti sér þennan uppruna.
DV hafði ranglega eftir ummælum hundaeigandans úr Facebook-hópnum að hundunum hefði verið byrlað rottueitur. Hið rétta er að sennilega er um annars konar eitrun að ræða. Grunur leikur á að óþekktur dýraníðingur byrli eitri fyrir bæði hundum og köttum í Kópavogi og víðar.
Eigandi hundanna er afar óánægður með fréttaflutning DV í málinu þar sem látið hafi verið liggja að því að eigandinn hafi sakað Kópavogsbæ um að bera ábyrgð á veikindum hundanna vegna eitrunar.
DV harmar þessi mistök og biðst innilega afsökunar á þessum rangfærslum.