ÁTVR hefur gert kröfu um að maður einn greiði stofnuninni 7.500 krónur vegna Jack Daniels viskíflösku sem hann stal úr vínbúðinni á Dalvegi í Kópavogi í október árið 2019.
Manninum, sem er erlendur, hefur verið birt fyrirkall og ákæra í Lögbirtingablaðinu vegna fimm afbrota. Ekki hefur tekist að birta honum ákæruna og er hún því birt samkvæmt lögum á þessum opinbera vettvangi.
Maðurinn er einnig sakaður um að hafa stolið mjúkdýri og barnakolli úr verslun IKEA í Garðabæ um svipað leyti, þ.e. haustið 2019.
Ennfremur er hann sakaður um að hafa, í félagi við annan mann, stolið ilmvötnum að verðmæti tæplega 180.000 krónur úr Hagkaupum Kringlunni. Gerðist þetta sumarið 2021.
Þá er maðurinn sakaður um tvö ökulagabrot.
Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 14. september næstkomandi. Ef maðurinn lætur ekki sjá sig þar verður það metið til jafns við að hann hafi játað sök varðandi þessi meintu afbrot. Verður þá dómur kveðinn upp yfir honum að honum fjarstöddum.