Bubbi Morthens birti í fyrradag færslu á samfélagsmiðlinum Twitter sem átti eftir að reynast ansi umdeild. Í færslunni sagði Bubbi einfaldlega að „auðveldasta leiðin til að beita aðra ofbeldi væri á Twitter.“
Í kjölfar birtingar færslunnar mátti greina mikla ólgu meðal fjölmargra netverja á samfélagsmiðlinum sem skiptust á að láta Bubba heyra það fyrir færsluna. Færsla Jafets Sigurfinnssonar um færslu Bubba var á meðal þeirra sem vakti hvað mesta athygli. Jafet minnti netverja á að Bubbi sjálfur hefur verið staðinn að óheilbrigðum samskiptum, meðal annars við samstarfsfólk.
Jafet sagði að „auðveldasta leiðin til að beita aðra ofbeldi sé á stöðum þar sem er valdaójafnvægi milli geranda og þolanda,“ og birti mynd af fyrirsögn Vísis sem fjallaði um meint ofbeldissamskipti Bubba og Þórunnar Antóníu þegar þau unnu saman að sjónvarpsþættinum Ísland got talent.
Fleiri netverjar lögðu orð í belg og kallaði ein kona Bubba til að mynda „gerendameðvirkan rudda sem kemst áfram á fake einlægni, gamalli frægð og feðraveldinu.“
Bubbi hefur nú svarað fyrir sig en það gerði hann í athugasemd við færslu grunnskólakennarans Heiðars Ríkharðssonar. „Geturðu komið þessum upplýsingum til byrlara, yfirmanna sem nýta sér valdastöðu, eldri gaura sem plata grunn- og framhaldsskólastelpur í heimsókn, ríkra sem níðast á fátækum og bara allra sem þegar telja sig hafa fundið auðveldustu leiðina,“ sagði Heiðar í færslunni sem Bubbi svaraði.
„Ofbeldi er allastaðar á netinu,“ sagði Bubbi í athugasemdinni. Þá sagði hann að Twitter væri aðalstaðurinn fyrir slíkt ofbeldi. „Þú getur sjálf komið þessu til leiðar, ég er að gera það með því að benda á þetta og hvað gerist ég verð fyrir netofbeldi ertu ekki að grínast drullað yfir mig kallaður nöfunum fyrir hvað benda á staðreynd.“
Heiðar svaraði athugasemd Bubba skömmu síðar og sagði að alhæfing hans um að Twitter sé helsti staðurinn fyrir ofbeldinu á netinu sé röng. „Leitt að þú sért kallaður nöfnum. Ég hef unnið gegn ofbeldi með fyrirlestrum, grunnskólavalgrein byggðri á Fávitum Sólborgar og fleira en platform mitt er smátt. Já, Twitter er illt. Nei, TikTok, snap og fleiri eru verri af því að þar eru börn targetuð. Alhæfing þín er röng!“