FC Bayern er byrjað að undirbúa næsta sumar ef marka má frétt Bild í dag. Þar segir að þýska stórveldið sé byrjað að ræða við umboðsmann Harry Kane.
Þar segir að Bayern vilji reyna að kaupa Kane eftir ár þegar hann mun aðeins eiga ár eftir af samningi sínum við Tottenham.
Kane vildi ólmur fara frá Tottenham fyrir ári síðan en ítrekuðum tilboðum Manchester City var hafnað.
Kane er 28 ára gamall og er sagður vilja klára feril sinn með nokkra titla í poka sínum. Slíkt hefur reynst erfitt hjá Tottenham en Bayern er í áskrift að titlum í heimalandi sínu.
Bild segir að Bayern hafi fengið góð viðbrögð frá umboðsmanni Kane um að hann gæti verið klár í að ganga í raðir þýska stórliðsins.