fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fókus

Bauð heimilislausum unglingi skjól og martröðin hófst – Klara át börnin sín

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Laugardaginn 23. júlí 2022 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hryllingssaga Mauerova fjölskyldunnar er furðuleg blanda af lygavef, misnotkun, mannáti og ofsatrú. 

Hún hefst á tékknesku systrunum Klöru og Katerinu Mauerova sem frá barnæsku héldu fram að þær væru hér á jörðu til að uppfylla vilja guðs.

Klara með sonum sínum áður en hryllingurinn skall á.

Systurnar fengu aldrei þá greiningu né læknisaðstoð sem þær svo augljóslega þurftu. Og þrátt fyrir allt var líf þeirra systra að mestu leyti ósköp venjulegt og Klara fór meira að segja í háskóla. Þar hitt hún eiginmann sinn, sem var töluvert eldri en hún, og eignuðust þau tvo syni, Ondrej og Jakub.

Eiginmaðurinn lét sig þó hverfa fljótlega eftir fæðingu yngra barnsins enda var hegðun Klöru orðin vægast sagt furðuleg. Hún talaði við almættið og sá bæði djöfla og púka í hverju horni.

Talin góð móðir

Það má teljast einkennilegt hjá manninum að ganga út og skilja kornung börn sín eftir hjá konu sem augljóslega var alvarlega veik á geði. Hann átti aldrei eftir að hafa samband við fyrrverandi eiginkonu sína eða börn.

Klara var samt sem áður álitin góð móðir og það sást oft til hennar að leik með börnum sínum. Það var augljóslega hugsað vel um drengina og allt virtist ganga prýðilega hjá Klöru þótt hún væri orðin einstæð móðir.

Klara þótti góð móðir.

Að því kom að Klara bauð Katerinu, systur sinni, að flytja inn. Hún var einmana og vildi gjarnan fá hjálparhönd við heimilisstörfin.

Svo kom Barbora

Systurnar vinguðust við hina 32 ára gömlu Barboru Skrlova. Barbora var með sjaldgæfan innkirtlasjúkdóm sem olli því að hún leit út fyrir að vera langtum yngri en hún raunverulega var. Flestir töldu hana reyndar barn. Barbora hafði lag á að koma sér í kast við lögin en náði oftar en ekki að víkja sér undan refsingu með því að þykjast vera barn. Hún hafði gengið svo langt að láta minnka brjóst sín svo þau urðu vart sjáanleg.

Barbora sem Anicka.

Barboru hafði meira að segja tekist að láta skrá sig opinberlega sem barn og hafði bæði kennitölu og skilríki því til sönnunar.

Barbora sagði systrunum að hún væri 12 ára gömul, héti Anicka, og ætti mikla sorgarsögu að baki. Svo virðist sem systurnar hafi trúað henni og buðu þær henni að flytja heim til þeirra og jafnvel ættleiða hana.

Og með því byrjaði hryllingurinn.

,,Læknirinn“

Barbora/Anicka var veikluleg og með þykk gleraugu. Hún sagði systrunum að hún væri með hvítblæði og nýrnasjúkdóm auk þess að vera bæði sjón- og heyrnarskert. Hún sagðist ennfremur þurfa að fara á sjúkrahús nokkrum sinnum í viku og var það ávallt Katerina sem keyrði hana.

Hvað um var talað í þeim ferðum er ekki vitað en svo virðist sem Barboru hafi tekist að heilaþvo Katerinu.

Klara fékk aldrei að fara með. Hún fékk aftur á móti skilaboð frá lækni Anicku sem gaf henni fyrirmæli um hvernig skyldi sinna henni. Meðal þess var að nudda Anicku og þá sérstaklega á klofsvæði. Klara hlýddi, enda umhugað um heilsu „barnsins.” Klara hitti þó aldrei „lækninn” sem sendi henni reglulega skilaboð og síðar kom í ljós að þau komu öll úr síma Katerinu.

Af hverju Katerina tók þátt í að blekkja systur sína á þennan hátt er erfitt að segja til um.

Klara ásamt ,,fósturdóttur“ sinn og sonum.

Ættleiðingin

Með tímanum fór Barbora/Anicka að verða afbrýðisöm út í þá athygli sem Klara veitt sonum sínum. Hún gerði í því að reita þá til reiði, braut hluti og kenndi þeim um. Geðheilsa Klöru versnaði með hverjum deginum og svo fór að hún fór að refsa drengjunum að áeggjan Anicku, sem hún var jú að reyna að ættleiða.

Einn daginn komu skilaboð frá „lækninum” sem sagði að vegna skelflegrar æsku þyrfti Anicka að vera ættleidd inn á heimili með stöðugleika. Ennfremur að synir Klöru kæmu illa fram við Anicku og væru almennt illa innrættir og andstyggileg börn. Eina leiðin til að Klara gæti ættleitt Anicku væri að mynda þennan svokallaða stöðugleika á heimilinu. ,

„Læknirinn” bjó meira að segja til áætlun um hvernig Klara ætti að bera sig að við , „meðferð” á sonum sínum.

Það er ekki hægt að kalla þá meðferð annað en pyntingar.

Allir trúðu að ,,Anicka“ væri 12 ára.

Svo virðist sem Anicka hafi fengið það á heilann að hafa Klöru sem móður út af fyrir sig og Klara sömuleiðis orðið heltekin af því að ættleiða Anicku.

Meðlimir kaleiksins

Að skipan „læknisins” fór Klara að berja syni sína. Hún fjarlægði þá úr herbergjum sínum, lét þá afklæðast og setti í búr í kjallaranum. Þar voru drengirnir látnir dúsa í eigin úrgangi, brenndir með sígarettum og helt yfir þá ísköldu vatni. Tóku allar konurnar þrjár þátt í ódæðunum. En ,,læknirinn” hélt áfram að senda skilaboð um að ganga þyrfti lengra í refsingunum til að ná „stöðugleika. ”

Katerina Mauerova.

Í ágúst árið 2006 skipaði „læknirinn” Klöru að fara með Anicku í afskekktan kofa í skógi nokkrum. Ætti hún að taka börnin með sér. Í kofanum hitti Klara systur sína, Katerinu, og þrjá aðra einstaklinga. Voru þau í öll meðlimir í sértrúarsöfnuði sem kallaði sig Meðlimi kaleiksins. Söfnuður þessi er ekki fjölmennur en þó með einhverja meðlimi í Evrópu. Kenningar hans eru óttalegt hnoð, byggðar á bókum þýsks heimspekings, en í aðalatriðum má segja að fylgismenn eigi að að einbeita sér að góðverkum og að launum væri þeir lausir undan reglum samfélagsins og reyndar með algjört fríspil í lífinu.

Það var reyndar faðir Barboru/Anicku sem leiddi söfnuðinn og einn þremenninga í bústaðnum var bróðir hennar.

DNA veldur áhyggjum

Drengirnir voru enn og aftur settir í búr og næstu dagana pyntuðu Klara, Katerina, Barbora/Anicka og þremenningarnir þá. Og þegar að því kom að barsmíðar og bruni þótti ekki nóg skáru þau hluta úr afturenda annars drengsins og neyddu hann til að borða. Þau gerðu slíkt hið saman

Jan var bróðir Borbara og tók þátt í pyntingunum.

Hryllingurinn gekk á í átta daga. Aðspurð síðar sagði Klara að hún hefði einfaldlega verið að hlýða skipunum læknisins svo að ættleiðingin gæti átt sér stað.

Klara, Katerina og Barbora/Anicka héldu heim á leið með drengina enda komið að því að ganga frá ættleiðingunni. En til að ættleiðing geti farið fram í Tékklandi þarf DNA sýni úr viðkomandi barni. Og þar sem Barbora/Anicka var i raun á fertugsaldri var hún í klemmu.

Sagan verður enn furðulegri. ,

Ættleiðingarfléttan

„Læknirinn” sendi skilaboð til Klöru um að Anicka væri of viðkvæm til að unnt væri að taka úr henni DNA sýni, finna þyrfti aðrar leiðir til að blekkja yfirvöld. Og eins ótrúlega og það hljómar réðu Klara og Katerina unga stúlku, dóttur þekkts leikara í Tékklandi, til að standa frammi fyrir dómstólum og þykjast vera Anicka.

Jan Turek var annað meðlimur sem tók þátt í ódæðunum.

Ekki gleyma því að Katerina var í raun „læknirinn” en virðist hafa talið sig gera rétt í blindri hollustu við sértrúarsöfnuðinn.

Blekkingarleikurinn virkaði og Klara ættleiddi Anicku formlega. Barbora/Anicka var himinlifandi enda heltekin af því að fá Klöru sem móðir. Án nokkurrar samkeppni frá sonum hennar.

Ár hryllings

„Læknirinn” skipaði því næst Klöru að flytja í stærra hús ásamt Anicku og Katerinu og skyldi Anicka fá stærsta herbergið. Drengirnir yrðu aftur á móti hafði í búrum í kjallaranum.

Við tók heilt ár þar sem hinn 8 ára gamli  Ondrej og 10 ára gamli Jakub voru pyntaðir á skelfilegan hátt. Þeir lágu naktir í búrunum án dýnu eða teppa. Þeir voru barðir, sveltir, brenndir með sígarettum, gefið rafstuð og misnotaðir kynferðislega. Þeir voru handjárnaðir og látnir borða eigin ælu þegar þeir köstuðu upp. Þeir voru látnir skera sig og hvorn annan með beittum hnífum.

Katarin og Klara á leið í réttarsal.

Einn góðan veðurdag kom skipun frá „lækninum” um að fita þyrfti drengina.

Af hverju Klara tók þátt í þessum hryllingi eftir að ættleiðingin hafði gengið í gegn er óskiljanlegt.

Mannát

Þegar að talið var að drengirnir væru búnir að fitna nóg skáru konurnar hluta af leggjum beggja drengjanna af og átu hrátt. Þeir neyddu einnig drengina til að borða eigið hold.

Í maí 2007 leit nágranni á skjá sem tengdur var við hlustunartæki í barnaherbergi og bjóst við að sjá barn sitt sofa vært. Þess í stað sá hann lítinn dreng í búri. Drengurinn lá nakinn og voru hendur hans bundnar. Hlustunartæki nágrannans hafði numið bylgjur frá öðru slíku tæki í nágrenninu. Klara hafði sett upp sambærilegt tæki í kjallaranum til að fylgjast með pyntingunum.

Nágranninn féll áfall við að líta á skjáinn.

Nágrannanum var eðlilega mjög brugðið og hringdi tafarlaust á lögreglu.

Kjallarinn

Lögregla bankaði upp á hjá öllum í hverfinu og bað um að fá að gera leit. Allir féllust á það nema konurnar í næsta húsi, systurnar Klara og Katerina Mauerova. Lögregla hlustaði ekki á slíkt og leitaði samt sem áður. Fundu lögreglumenn læsta hurð sem konurnar neituðu að opna. Hurðin var brotin upp og fundust drengirnir í skelfilegu ástandi.

Drengjunum var þegar komið til hjálpar og Klara og Katerina ákærðar fyrir pyntingarnar. Hinni ,,12 ára” gömlu Anicku var komið komið fyrir á fósturheimili þaðan sem hún flúði til Noregs áður en lögreglu tókst að uppgötva blekkinguna.

Barbora sem Adam í Noregi.

Noregur

Þegar til Noregs var komið varð hin 12 ára Anicka að 13 ára krabbameinsveikum dreng að nafni Adam. Voru það faðir hennar og trúarsöfnuðinn sem aðstoðaði Barboru við blekkinguna og fjármögnuðu þau meðal annars flóttann. Barboru tókst að blekkja norsk yfirvöld, kvaðst munaðarlaus og var komið fyrir á fósturheimili. Næstu þrjá mánuði stundaði Barborga/Adam nám í barnaskóla í Osló og grunaði engan að um fullorðna konu væri að ræða. Adam neitaði reyndar að fara í leikfimi og þótti ekki rétt að neyða drenginn til þess.

En tékkneska lögreglan hafði undið ofan af málinu og var Barbora send heim í lögreglufylgd.

Klara sagði sig heilaþvegna.

Skýringar sökudólga

Drengirnir voru nú að mestu heilir sára sinna og byrjaðir að tala. Sögðu þeir frá hinum hræðilegu pyntingum sem þeir hefðu orðið fyrir af hendi móður sinnar, frænku og Anicku.

Snerust þær nú allar þrjár gegn hvor annarri og benti þær hver á aðra sem sökudólg. Gerendur í kofanum voru einnig ákærðir.

Klara sagðist hafa verið heilaþvegin af „lækninum” og trúað því í einlægni að , „meðferðin” væri drengjunum til góðs. Katerina viðurkenndi að vera „læknirinn” en að skipan safnaðarins sem hún trúði vera í beinlínusambandi við almættið.

Barbora hélt því aftur á móti fram að vera fórnarlamb systranna og sætt ofbeldi af þeirra hendi. Enginn trúði því.

Dómur fellur

Við réttarhöldin kom fram að Barbora og Katerina voru meðlimir safnaðarins sem var að baki ættleiðingarbrellunni. Barbora hafði náð að lokka hana til fylgist fljótlega eftir að hafa flutt inn á systurnar. Tilgangurinn með pyntingum drengjanna var annars vegar að sanna trúarhita sinn og hins vegar að brjóta þá andlega niður og gera að síðan að safnaðarmeðlimum.

En Klara var hreint ekki saklaus. Hún hafði hlýtt hverju orði og pyntað börn sína á ólýsanlegan hátt, meðal annars með að láta þá borða hold hvors annars.

Barbora Skrlova

Klara fékk 9 ára fangelsisdóm, Katerina fékk 10 ár en Barbora aðeins 5 ára dóm. Aldrei hefur almennilega komið fram hvaða geðveilur hrjáðu konurnar og enn í dag má finna á netinu spjallþræði, undirlagða af kenningum. Sérstakan áhuga vekur árátta Barboru fyrir að vera barn.

Allar hafa þær setið af sér dómana og ganga þær nú lausar.

Ondrej and Jakub Mauerova voru ættleiddir af bandarískri fjölskyldu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur
Fókus
Fyrir 3 dögum

Ragna á von á barni

Ragna á von á barni
Fókus
Fyrir 4 dögum

Vissi að hjónabandið væri dauðadæmt þegar eiginmaðurinn sagði þessi tvö orð í brúðkaupinu

Vissi að hjónabandið væri dauðadæmt þegar eiginmaðurinn sagði þessi tvö orð í brúðkaupinu
Fókus
Fyrir 4 dögum

Taylor Swift sogast inn í stóra Hollywood-dramað – „Ég er Khaleesi og eins og hún þá vill svo til að ég á nokkra dreka“

Taylor Swift sogast inn í stóra Hollywood-dramað – „Ég er Khaleesi og eins og hún þá vill svo til að ég á nokkra dreka“