fbpx
Miðvikudagur 17.júlí 2024
Fókus

Ásgeir opnar förðunarskóla ásamt konu sinni: Vill fá fleiri stráka í förðunarnám

„Það þykir ekkert rosalega karlmannlegt að vera förðunarfræðingur þegar maður er gagnkynhneigður“

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 21. febrúar 2016 17:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Plássið við hliðina á okkur losnaði og við tókum þá ákvörðun að opna bara fullvaxta förðunarskóla,“ segir hárgreiðslumeistarinn Ásgeir Hjartarson sem rekur hárgreiðslustofuna Hairbrush ásamt konu sinni Bergþóru Þórsdóttur förðunarfræðingi. Hún hefur um nokkurt skeið haft aðstöðu til að kenna airbrush-förðun á stofunni, en þeim fannst nú tími til kominn að stækka við sig. Skólinn hefur fengið nafnið MASK – Makeup & Airbrush Academy og til stendur að kennsla hefjist þann 22. febrúar næstkomandi.

Þrír karlmenn að kenna

„Við munum taka allan pakkann, skólinn er fyrir alla. Líka þá sem hafa aldrei haldið á pensli áður. Begga var í Los Angeles um árabil og tók kennararéttindi í förðun og airbrush-förðun þar. Hún er því vel fullgildur kennari,“ útskýrir Ásgeir, en Bergþóra er einnig skólastjóri skólans. Þá hafa þau hjónin fengið hóp af góðu fólki til liðs við sig og það vekur athygli þegar heimasíða skólans er skoðuð að þrír af sjö kennurum eru karlmenn. Þar á meðal Ásgeir sjálfur. Svo jöfn skipting kynja við kennslu í förðunarnámi hlýtur að vera einsdæmi, enda karlmenn í miklum minnihluta í faginu.

„Þetta eru aðallega stelpur en það slæðist einn og einn strákur með. Það þykir ekkert rosalega karlmannlegt að vera förðunarfræðingur þegar maður er gagnkynhneigður. Flest allir þessir frægu „make up artistar“ eru samkynhneigðir. Það loðir svolítið við þetta og auðvitað hárgreiðsluna líka. Þetta hefur samt verið að breytast á síðustu tíu árum.“

Gagnkynhneigðum fjölgar

Ásgeir, sem hefur starfað við hárgreiðslu í 25 ár, viðurkennir að þessi staðalímynd af hárgreiðslumanninum geti verið þreytandi. „Maður vill verja sitt fag og allt það. Ég er frá Akureyri og ég man að þegar ég byrjaði að læra og kom með alls konar gel, sjampó og sprei norður, þá fannst vinum mínum þetta voðalega kerlingarlegt. Þeir sögðu að ég hefði breytt rödd minni, sem er auðvitað algjört kjaftæði. En gagnkynhneigðum karlmönnum hefur fjölgað mikið í faginu og ég held að ég sé alveg búinn að sanna að gagnkynhneigðir menn geti verið góðir hárgreiðslumenn. Ekki bara í því að klippa herra heldur í að gera flottar greiðslur og vera vera listrænir í þessu fagi.“

„Þeir sögðu að ég hefði breytt rödd minni, sem er auðvitað algjört kjaftæði.“

Miklir fagmenn

Ásgeir ætlar einmitt að miðla þekkingu sinni á hári í skólanum, en verður lítið í förðuninni.
„Ég gef mig ekki út fyrir að vera „make up artisti“ en ég get vel farðað og hef gert það, en ég mun ekki kenna það í skólanum. Ég mun bara kenna hárið. Það verður reyndar ekki djúp kennsla í því, en ég mun til dæmis kenna að túpera og á notkun hártækja. Einnig mun ég fara yfir hvaða greiðsla hentar tiltekinni gerð förðunar og fleira í þeim dúr,“ segir Ásgeir sem vill ekki gera of mikið úr sínum hlut. Enda séu hinir karlmennirnir miklir fagmenn á sínu sviði, en um er að ræða Haffa Haff, förðunarfræðing, fatahönnuð og stílista, og Stefán Jörgen brelluförðunarmeistara.

„Það er afskaplega gaman að fá Haffa Haff. Hann er auðvitað fyrst og fremst „make up artisti“ en hann fer líka í mannleg samskipti – samskipti á milli förðunarfræðings og módels í stúdíói. Svo er það Stefán sem er algjör snillingur með gríðarlega reynslu. Hann er ekki einungis í því að búa til stór nef eða að láta fólk líta út fyrir að vera eldra en það er. Hann gerði til dæmis allar brúðurnar í Latabæ.“

Lengri námskeið

Aðspurður um sérstöðu skólans segir Ásgeir hana meðal annars vera lengd námsins, en það sé lengra en gengur og gerist í förðunarnámi. Um er að ræða 12 vikna nám, en 14 vikna með airbrush-námskeiði. Hann segir förðunarskóla gjarnan bjóða upp á átta vikna námskeið, en þau hjónin treysti sér ekki til að útskrifa fólk eftir svo skamman tíma. Vilja frekar að nemendur fái meiri kennslu og öðlist dýpri þekkingu á því sem þeir eru að gera áður en þeir ljúka námi.

Ásgeir segist finna fyrir töluverðum áhuga á skólanum þrátt fyrir að nokkrir förðunarskólar séu starfræktir á Íslandi. „Það er greinilega pláss fyrir okkur á markaðnum, en auðvitað vitum við ekki hvernig þetta fer. Við erum komin með þó nokkrar skráningar en erum ekki búin að fylla skólann. Ég vona bara að fleiri strákar skrái sig í skólann. Mér þætti það æðislegt,“ segir Ásgeir að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Shannon Doherty látin aðeins 53 ára að aldri

Shannon Doherty látin aðeins 53 ára að aldri
Fókus
Fyrir 3 dögum

Heilabrot: Sú mynd sem þú sérð fyrst lýsir persónuleika þínum

Heilabrot: Sú mynd sem þú sérð fyrst lýsir persónuleika þínum
Fókus
Fyrir 4 dögum

Harry og Meghan fá á baukinn fyrir nýja ,,áhugamálið“ í Bandaríkjunum

Harry og Meghan fá á baukinn fyrir nýja ,,áhugamálið“ í Bandaríkjunum
Fókus
Fyrir 4 dögum

Frosti úthúðar fyrrverandi vinnufélaga sínum

Frosti úthúðar fyrrverandi vinnufélaga sínum
Fókus
Fyrir 6 dögum

Býfluga fór illa með Hollywood-kyntáknið

Býfluga fór illa með Hollywood-kyntáknið
Fókus
Fyrir 6 dögum

Eddie Vedder segist hafa verið hætt kominn – Pearl Jam hættu við tónleika í London sem margir Íslendingar ætluðu á

Eddie Vedder segist hafa verið hætt kominn – Pearl Jam hættu við tónleika í London sem margir Íslendingar ætluðu á