Rannsókn á Barðavogsmálinu er mjög langt komin en lögregla bíður eftir gögnum, meðal annars gögnum um sakhæfi hins grunaða, Magnúsar Arons Magnússonar. Þetta kemur fram á mbl.is.
Þann 4. júní síðastliðinn var Gylfa Bergmann Heimissyni ráðinn bana í íbúðarhúsnæði við Barðavog. Hinn grunaði er annar íbúi í húsinu, Magnús Aron Magnússon. Hefur hann setið í gæsluvarðhaldi frá því málið kom upp. Gæsluvarðhaldsúrskurður Magnúsar rennur út eftir tíu daga en talið er að óskað verði eftir framlengingu á gæsluvarðhaldinu ef rannsókn verður ekki lokið þá.
„Það er svolítið eftir, en það er flestum rannsóknaraðgerðum lokið. Við erum fyrst og fremst að bíða eftir gögnum. Það er bara spurning hversu löng sú bið verður,“ segir Eiríkur Valberg, hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.