Birgir Guðjónsson meltingarlæknir skrifaði grein sem birtist í Morgunblaðinu í morgun sem ber nafnið „Keppnisleyfi/bann transkvenna“ en óhætt er að segja að greinin hafi fallið í grýttan jarðveg hjá baráttufólki um réttindi trans fólks.
Í greininni lýsir Birgir yfir stuðningi sínum við ákvörðun Sundsambands Íslands um að styðja Alþjóðasundsambandið í framsetningu skilyrða sem trans konur verði að uppfylla til að þær megi keppa á heimsmeistaramótum í sundi. „Forystumenn Sundsambands Íslands hafa verið gagnrýndir fyrir að styðja vísindaráð Sundsambandsins. Hér var ekki um bann að ræða heldur leyfi. Meginþorri transkvenna er útilokaður frá slíkri keppni samkvæmt áratuga gömlum reglum. Líkur eru á að fleiri Alþjóðasérsambönd geri það sama. Þetta er viðkvæmt mál og virðist flókið en er rökrétt,“ sagði Birgir.
Bendir hann á að karla- og kvennaíþróttir hafi verið aðskildar um aldir og hann segir það vera ekki síst að ósk kvenna. Birgir nefnir kastíþróttir, svo sem spjótkast og kúluvarp, sem dæmi um hvað karllíkaminn er, að hans sögn, „óneitanlega sterkari.“ Birgir ræðir síðan nokkuð um hormóna og litninga og ber steranotkun saman við það að trans konur keppi á heimsmeistaramótum kvenna.
„Eðlilegt magn [testósteróns] hvors kyns er þekkt og skilgreint. Bæði kynin hafa orðið uppvís að taka testósterónskyld lyf oftast nefnd sterar (ólöglega) til að bæta árangur en það varðar refsingu.“
„Nokkur dæmi eru um að karlmenn hafi viljað lauma sér í raðir kvenna til að ná árangri. Þekktasta dæmið er að japanskur karl reyndi að keppa í hástökki kvenna á Ólympíuleikunum í Berlín 1936. Konum hefur augljóslega ekki líkað það og ekki viljað aðra í sínar raðir en líffræðilega venjulegar konur og án hormónaávinnings, hvort sem er meðfæddur eða vegna neyslu,“ skrifar Birgir. Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, hendir gaman að þessu í færslu á Twitter, þ.e. hvaða dæmi Birgir notast við máli sínu til stuðnings. Að hann fari alla leið aftur til Þýskalands nasismans til þess, það er til Ólympíuleikanma í Berlín árið 1936:
Ef besta dæmið er frá tíma Þýskalands nasismans, þá er kannski óþarflega mikið stress út af trans konum í sundi…
„Nokkur dæmi eru um að ♂ hafi viljað lauma sér í raðir ♀️ til að ná árangri. Þekktasta dæmið er að 🇯🇵 karl reyndi að keppa í hástökki kvenna á ÓL í Berlín 1936.“ pic.twitter.com/BM3QseIfHA— Andrés Ingi (@andresingi) July 19, 2022
Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir, rithöfundur og trans aktívisti, sakar Birgi um að fara rangt með heimildir og telur hann þar með ómarktækan. „Þetta dæmi sem hann tekur er mun flóknara en að japanskur karl hafi þóst vera kona’ til að næla sér í nokkrar medalíur, heldur er um þýska intersex manneskju að ræða sem hét Heinrich Ratjen. Ef rannsóknarvinna viðkomandi er ekki betri en þetta, hvernig er hægt að taka einhverju alvarlega sem viðkomandi ritar? Það er nú algjört lágmark að fara rétt með grunn staðreyndir ef þú ætlar að sjálfskipa þig sem einhvern sérfræðing í þessum málum.,“ segir hún í færslu sem hún birti á Facebook-síðu sína fyrr í dag.
Þar á eftir tekur hann fyrir hinar rússnesku Press-systur sem hann kallar „karlmannlegar.“ Þær unnu mörg verðlaun í frjálsum íþróttum en hættu að keppa þegar litningapróf voru tekin upp til kyngreiningar. Birgir vísar þar ekki til neinnar umfjöllunar um systurnar eða gefur upp hlekk að niðurstöðum litningaprófs, [vegna þess að slík prófun hefur aldrei farið fram] en gefur í skyn að um „laumukarlmenn“ hafi verið að ræða. Karlmenn sem gjörbreyta lífi sínu, hegðun sinni, rödd, klæðaburði, samböndum við fjölskyldu og vini og allt það sem felst í hinu hefðbundna samfélagshlutverki kvenna, til að vinna medalíu í kúluvarpi. Vert er að taka fram að báðar systurnar, þær Irina og Tamara, eru látnar. Irina á sjötugsaldri árið 2004 og Tamara á níræðisaldri í fyrra.
Annað dæmi sem Birgir nefnir er mál Caster Semenyu, suður-afrísku afrekshlaupakonunnar, sem vann í sínum greinum með yfirburðum á heimsmeistaramótinu í Berlín 2009. Hann segir að komið hafi í ljós eftir að hún var látin sæta alls konar rannsóknum að hún var með aukna testósterónframleiðslu. Henni var í kjölfarið meinuð þátttaka í 400 og 800 metra hlaupum, hennar sterkustu greinum. Í huga Birgis jafngildir þátttaka trans kvenna í kvennaíþróttum steranotkun og er ósanngjörn gagnvart „alvöru, venjulegu“ konum.
„Breytilegt er hvenær kynbreyting (á ensku sex change) á sér stað en þangað til þróast og styrkist líkami verðandi transkonu undir áhrifum testósteróns. Litningapróf munu þó alltaf vera karlkyns. Skurðaðgerðir breyta engu um það. Transkonur mundu því alltaf falla á kyngreiningarprófi. Keppnisþátttaka transkvenna hefur verið óvissuvandamál um nokkurn tíma,“ skrifar Birgir.
Birgir segir að ákvörðun Alþjóðasundsambandsins hafi ekki verið sú að banna krans konum að keppa heldur að leyfa þeim keppni ef kynbreyting væri gerð það snemma á ævinni að engin áhrif yrðu til langframa af testósteroni. „Þessi ákvörðun á að sinni aðeins við efstu mót. Ef til vill verður fundin málamiðlun eftir kynbreytingu síðar á æviskeiðinu og fyrir þátttöku á lægri stigum íþrótta en meginatriði er að venjulegar konur séu sáttar, annars keppa þær ekki við transkonur,“ segir Birgir.
„Ég óska öllu hinsegin fólki velfarnaðar í sínu einkalífi,“ eru lokaorð greinar Birgis.