Á laugardaginn fannst 54 ára breskur karlmaður dáinn á sólbekk á strönd í Stalida á Krít. Hann hafði legið hreyfingarlaus klukkustundum saman án þess að nokkur veitti því athygli. Það var ekki fyrr en starfsmenn strandarinnar reyndu að ýta við honum sem í ljós kom að hann var dáinn.
Sky News skýrir frá þessu og segir að reynt hafi verið að endurlífga manninn en það hafi ekki tekist og hafi hann verið úrskurðaður látinn þegar komið var með hann á sjúkrahús.
Ströndin á Stalida er vinsæl meðal fjölskyldufólks en hún er á norðurhluta Krít á milli Malia og Hersonissos.
Heitt hefur verið á Krít að undanförnu eins og víðar í sunnanverðri Evrópu. Tugir gróðurelda hafa blossað upp og hafa slökkviliðsmenn átt fullt í fangi með að glíma við þá.