Dregið var í þriðju umferð forkeppni Sambandsdeildar UEFA fyrr í dag. Víkingur Reykjavík og Breiðablik gætu þar tekið þátt, komist liðin í gegnum andstæðinga sína í annari umferð.
Síðar í þessari viku hefst önnur umferð. Víkingar mæta þá The New Saints frá Wales og Blikar mæta Buducnost frá Svartfjallalandi.
Vinni Víkingur einvígi sitt mætir liðið Lech Poznan frá Póllandi eða Dinamo Batumi frá Georgíu í þriðju umferð.
Ef Breiðablik vinnur sitt einvígi mætir liðið İstanbul Başakşehir frá Tyrklandi eða Maccabi Netanya frá Ísrael í þriðju umferð.
Þess má geta að Mesut Özil, fyrrum leikmaður Arsenal og Real Madrid, leikur með Başakşehir.
Þriðja umferðin verður spiluð 4. og 11. ágúst.