Eiturlyf sem kallað hefur verið „bleikt kókaín“ og hefur verið vinsælt í Suður-Ameríku er nú farið að finnast í auknum mæli í Evrópu, sérstaklega á Spáni.
Þrátt fyrir nafnið inniheldur efnið sjaldnast nokkuð kókaín heldur er um að ræða verksmiðjuframleitt lyf sem líkist frekar MDMA og framkallar allt frá eins konar alsælutilfinningu til mikilla ofskynjana. Oft inniheldur það líka ketamín, koffein og jafnvel fentanýl. Bleiki liturinn kemur síðan einfaldlega frá matarlit.
Bleika kókaínið er þekkt undir fleiri nöfnum, svo sem 2C-B, Tusi eða Tusibi.
Efnið hefur fest sig í sessi á teknóklúbbum og tónlistarhátíðum í Suður-Ameríku en nýjustu fréttir herma að efnið sé komið til Evrópu og sé til að mynda vinsælt á Ibiza.
Mest af efninu er framleitt í Kólumbíu, Argentínu og Úrúgvæ.
Bleiki liturinn er hluti af markaðssetningu efnisins sem er mun dýrara en kókaín. Efnið er ýmist í duftformi, töflum eða hylkjum.
Smellið hér að neðan til að horfa á myndband um efnið sem er unnið af rannsóknarblaðamanni VICE.