Ousmane Dembele skrifaði í dag undir tveggja ára samning við Barcelona.
Samningur hans við félagið rann út fyrir um tveimur vikum og var hann til að mynda sterklega orðaður við Chelsea á tímabili. Nú er hins vegar ljóst að hann fer ekki annað.
Dembele tekur á sig um 40% launalækkun til að vera áfram hjá Barcelona. Félagið á í miklum fjárhagserfiðleikum og gat því ekki borgað Frakkanum sömu laun áfram.
Þrátt fyrir það getur Dembele, með bónusum, unnið sér inn allt að tíu milljónir punda á ári í Katalóníu. Það fer allt eftir frammistöðu leikmannsins inni á vellinum.
Dembele hefur verið á mála hjá Barcelona síðan 2017. Hann stóð lengi vel ekki undir væntingum en tók aðeins við sér á síðustu leiktíð.
Dembele er 25 ára gamall. Hann á að baki 27 A-landsleiki fyrir hönd Frakka.