Neytendastofa telur að tilboðsmerking Costco á nautahakki hafi verið villandi. Óljóst hafi verið af merkingunni hvað fólst í raun og veru í tilboðinu.
Neytendastofu barst ábending vegna auglýsingar sem viðskiptavinum Costco barst í tölvupósti undir yfirskriftinni „Nýjar vörur & tilboð“. Í úrskurði Neytendastofu vegna málsins segir:
„Í auglýsingunni tilgreindi félagið hvergi það fyrra verð sem auglýstar tilboðsvörur hefðu áður verið seldar á áður en til verðlækkunar kom. Þá var aðeins við einstaka vörur vísað til þess verðs sem auglýst væri sem tilboðsverð og í þeim tilvikum aðeins vísað til verðlækkunar í krónum. Við ákveðnar vörur var hins vegar aðeins vísað til gildistíma
tilboðsins án frekari upplýsinga.“
Neytendastofa telur ámælisvert að Costco geri ekki grein fyrir því hvert fyrra verð nautahakksins hafi verið. Sé því algjörlega óljóst hvað felist í tilboðinu.
Neytendastofa sendi Costco fyrirspurn þar sem óskað var skýringa á þessari framsetningu. Ekki bárust nein svör frá Costco til stofnunarinnar.
Neytendastofa telur að með þessari framgöngu hafi Costco brotið gegn lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. Gefur Neytendastofa út að Costco sé hér með bannað að viðhafa þessa viðskiptahætti. Bannið tók gildi þann 4. júlí.
Úrskurð Neytendastofu má lesa hér