Brynjar Níelsson, aðstoðarmaður dómsmálaráðherra, er ekki alls kostar sáttur við hvernig gert hefur verið grín að þátttakendum í keppninni „Miss Universe Iceland“.
Ljósmynd sem sýnir nokkra keppendur, er virðast afar áþekkar útlits, hefur orðið tilefni að gríni, sérstaklega á Twitter.
Brynjar segir að hæðni sé vandmeðfarin en samt þurfum við að gera grín hvert að öðru. Svo segir í pistli hans:
„Hæðni er vandmeðfarin og við erum mis viðkvæm þegar hún beinist að okkur sjálfum. Sumir eru mjög viðkvæmir fyrir glensi og jafnvel fyrir hönd annarra, til dæmis ýmissa minnihlutahópa, eins og hörundsdökka, transfólk, samkynhneigða og annað fólk sem er öðruvísi en fjöldinn og því í viðkvæmri stöðu. Er það mjög skiljanlegt.
Það er nú samt svo að maðurinn er spaugilegt fyrirbæri. Ef við hættum að gera grín hvert að öðru erum við dauðans matur, að minnsta kosti andlega. En hæðni er ekki sama og hæðni. Það er nefnilega til góð hæðni og vond hæðni, alveg eins og það er til gott fólk og slæmt fólk. Ekkert af okkur mannfólkinu er þó fullkomið og við gerum öll mistök í lífinu. Þess vegna er fyrirgefningin mikilvæg.“
Brynjar óskar þess að það dragi úr vondu hæðninni en þeirri góðu vaxi ásmegin. Hann átti sig samt á því að kannski virðist boðskapur hans koma úr hörðustu átt:
„Ágætt væri ef við gætum dregið úr vondu hæðninni. Vond hæðni er sú sem hefur þann tilgang að niðurlægja fólk og er sett fram af andúð, illgirni og fórdómum. Tilefni þessarar færslu er að ég tók eftir því á samfélagsmiðlum að margir þeirra sem eru alla jafna hvað mest móðgaðir og misboðið yfir glensi annarra keppast hver við annan að niðurlægja með hæðni stúlkur sem keppa í fegurðarsamkeppni Íslands.
Einhverjum kann að finnast þessi boðskapur koma ur hörðustu átt. Kannski er ég ekki alsaklaus en man þó bara eftir einu glensi þar sem ég gerði hallærislegt grín að áhrifavöldum. Baðst afsökunar á því daginn eftir.“