Ungur breskur skákmeistari var á dögunum handtekinn við lendingu Easyjet-flugvélar á flugvelli á spænsku eyjunni Menorca. Málið vakti heimsathygli en farþegar í flugvélinni urðu skelfingu lostnir þegar að þeir tóku eftir því skömmu fyrir lendingu vélarinnar að orrustuflugvél spænska hersins af gerðinni F-18 fylgdi flugvélinni síðasta spölinn. Ekki tók betra við þegar vélin lenti en farþegum var gert að dúsa í vélinni í meira en fjórar klukkustundir á meðan spænsk lögregluyfirvöld rannsökuðu málið.
Í fyrstu fréttum af málinu kom fram að borist hafi sprengjuhótun úr vélinni frá 18 ára breskum farþega. Hann hefur nú stigið fram í viðtali við The Sun en drengurinn heitir Aditya Verma, er 18 ára skákmeistari með rúm 2100 skákstig og afburðarnámsmaður sem mun hefja nám við Cambridge-háskóla í haust.
Hann var á leið til Menorca í nokkra daga frí ásamt fimm vinum sínum, til að fagna skólalokum, þegar ósköpin dundu yfir. Verma segist hafa verið að grínast í vinum sínum og sendi meðal annars, rétt fyrir flugtak, eftirfarandi setningu í einkaskilboðum til þeirra á Snapchat: „Ég ætla að sprengja upp flugvélina. Ég er talíbani“ (e. I´m going to blow up the plane. I´m a taliban).
Verma var að nota þráðlaust net flugvallarins á þessum tímapunkti og þar sem talíbanar og þeirra myrkraverk eru ekki í miklum metum á flugvöllum hófst þögult öryggisferli á bak við tjöldin sem Verma hafði ekki hugmynd um.
Hann segist hafa sokkið niður í sætið þegar hann heyrði af orrustuþotunni og áttað sig þá á mistökum sínum. Þegar flugvélin var lent hafi lögreglan umsvifalaust gengið á hann og vini hans. Í kjölfarið var Verma handtekinn og færður á járnum á nærliggjandi lögreglustöð en vinum hans var sleppt.
„Mér þykir afar leitt að hafa eyðilagt frí vina minna. Þetta var grín og það var ekki ætlun mín að hræða neinn í flugvélinni. Ég sendi þessi Snapchat-skilaboð til vina minna þegar við vorum að ganga um borð. Þetta var brandari en við vorum að grínast með hverjir okkar yrður stoppaðir í öryggishliðinu,“ segir Verma í viðtalinu.
Honum var að endingu sleppt gegn tæplega 1,5 milljón króna tryggingu og fékk leyfi til að yfirgefa Spán. Spænsk yfirvöld hafa enn ekki tekið ákvörðun um hvort að málið verði sent meðferðar fyrir breskum dómstólum.