Bilið í ævilengd milli menntunarhópa er að aukast hérlendis á þá leið að hinir menntuðu lifa lengur en hinir ómenntuðu. Þetta kemur fram í nýrri grein frá Hjartavernd og samstarfsfólki stofnunarinnar sem birtist í nýjasta tölublaði Læknablaðsins.
Greinin ber yfirskriftina „Áhrif menntunar á áhættuþætti og nýgengi æðakölkunarsjúkdóma“ en í henni er sagt frá því hvernig menntunarstaða hjá fólki á miðjum aldri tengist einkennalausri æðakölkun, áhættu þáttum hjarta- og æðasjúkdóma og nýgengi þeirra. Fólkinu í rannsókninni var fylgt eftir í 10 ár og var tíðni nýrra hjarta- og heilaáfalla hæst meðal minnst menntaðra.
„Þessar niðurstöður eru sérlega áhugaverðar fyrir þær sakir að ekki hefur áður verið sýnt fram á tengslin milli lágs menntunarstigs og umfangs einkennalausrar æðakölkunar í slagæðum. Þessar niðurstöður styðja þá kenningu að lágu menntunarstigi fylgi aukin sjúkdómsbyrði með því að aukin nýmyndun æðakölkunar kemur fram hjá þessum hópi,“ segir í umræðukafla greinarinnar.
Alls eru tíu íslenskir vísindamenn skráðir sem höfundar greinarinnar en einn þeirra er Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði við Háskóla Íslands. Thor vekur athygli á greininni í Facebook-færslu þar sem fram kemur að munu í stöðu áhættuþátta milli menntunarstiga sé sláandi – sér í lagi reykingar, þyngdarstuðull, þríglýseríðar og hreyfing í frítíma.
Í færslu Thors veltir hann vöngum yfir þessari stöðu og bendir á að í greininni sé vitnað í gögn Hagstofunnar sem sýna jákvæða þróun í ævilengd þjóðarinnar en að bilið í ævilengd milli menntunarhópa er að aukast.
„Það ætti að vera keppikefli að auka menntun sem víðast. En það er umhugsunarvert að menntun getur líka verið notuð til að flokka fólk í stéttir og til aðgreiningar. Menntavísindafólk hefur verið að verið að vekja athygli á þessu undanfarið,“ skrifar Thor.
Hann bendir á athyglisverða grein Auðar Magndísar Auðardóttur í nýjasta tölublaði Skírnis sem hann segir að veki lesendur til umhugsunar um menntun og stéttskiptingu á Íslandi. Greinin ber yfirskriftina: Aðgreining, tilfinningar og kynjaður veruleiki foreldra í stéttskiptu þjóðfélagi.
Í greininni, segir Thor, er meðal annars fjallað um þá hugmynd að skólakerfið sýnist hlutlaust „þegar það er í raun hannað í kringum ríkjandi valdakerfi þjóðfélagsins.“
Að mati prófessorsins sé ekki annað hægt að taka undir eftirfarandi orð í greininni. „Það er þess vegna nauðsynlegt að vinna gegn því að bilið milli stétta breikki hérlendis. Undanfarna áratugi hefur það bil einmitt breikkað með þeim afleiðingum að harka færist í leikinn þegar kemur að endursköpun stéttaskiptingar og aðgreiningarþörf efri stétta eykst.“
Thor segir að niðurstaða greinar Hjartaverndar í Læknablaðinu sýni ákveðið heilsuforskot sem sumir hópar njóti umfram aðra.
„Kannski má segja forréttindahópar sem hafa meiri umráð yfir sínum tíma og hærri tekjur. Gildir þetta á fleiri sviðum? Er aðgreiningarþörfin svona ríkjandi að forréttindastéttir hafi til dæmis búið til leiðir til hreyfingar í frítíma sem útiloka aðra? Og hvað með neyslu á næringarríkari og hollari mat? Það þarf sveigjanleika, kunnáttu og tíma og oft meiri peninga til að borða hollt. Og erfitt að borða hollt ef fólkið í kringum þig er ekki á sömu línu,“