Hrafnkell Karlsson gerir áreitni í garð hinsegin fólks, og það bakslag sem hann upplifar í baráttunni, að umtalsefni í grein sem hann skrifar á Vísir.is og ber yfirskriftina: „Að vera hinsegin.“
Hann er sjálfur hinsegin og segist alltaf hafa talið sér trú um að hann væri heppinn að búa á Íslandi þar sem barátta hinsegin fólks er framarlega á mörgum sviðum, sér í lagi þegar kemur að lagasetningum. Annað sé uppi á teningnum þegar kemur að fordómum og félagslegum viðmiðum, og að staðan fari versnandi.
„Flest fólk hefur núna heyrt af nýju trendi þar sem einstaklingar og hópar veitast að hinsegin fólki með því að gelta á það. Þetta áreiti hefur þann eina tilgang að svipta hinsegin fólk mennsku sinni. Þann níunda júlí síðastliðin voru samkynja hjón að fagna brúðkaupsafmæli sínu þegar hópur karla tók að gelta á þá. Fullorðnir karlar á þrítugsaldri. Einn þeirra sagði síðan: „Það á að gelta á þessi helvíti.“ Þetta er ekki einsdæmi. Áreitið er orðið svo slæmt að hópar af hinsegin unglingum forðast að fara ein út úr húsi,“ skrifar Hrafnkell.
Hann segir að þessi sömu ungmenni fái þau komment að þau séu ekki einu sinni manneskjur fyrir það eina að vera sönn sjálfum sér og sýna með stolti hinseginleika sinn. Þeim sé einfaldlega hrint aftur inn í skápinn.
Hrafnkell rifjar síðan upp tölfræði úr skýrslunni „Könnun á líðan hinsegin ungmenna í skólaumhverfi“ sem Samtökin ´78 birtu. Þar hafi hann séð að lítið hafi breyst frá því hann var sjálfur í skápnum fyrir um áratug, og það hafi hryggt hann mjög.
Í skýrslunni kom meðal annars fram að þriðjungur hinsegin nemenda greindi frá því að finna til óöryggis í skólanum síðasta árið vegna kynhneigðar sinnar. Svipað hlutfall hafði verið áreitt munnlega vegna kynhneigðar sinnar og tæp 13% hinsegin nemenda höfðu verið áreitt líkamlega vegna kynhneigðar sinnar.