Daníel Gunnarsson, 21 árs gamall Íslendingur, verður ákærður fyrir hrottalegt morð á fyrrverandi bekkjarsystur sinni, Katie Pham, og limlestingu á líki hennar í Kern-sýslu í Kaliforníu í fyrra. Fréttablaðið greinir frá en það var Joseph A. Kinzel, varahéraðssaksóknari sýslunnar sem staðfesti þetta.
Sjá einnig: Íslendingur grunaður um morð í Bandaríkjunum – Talinn hafa limlest líkið eftir ódæðið
Eins og DV greindi frá í júní í fyrra var Daníel handtekinn blóðugur á vettvangi morðsins, bílskúr við heimili stjúpföður síns í borginni Ridgecrest í Kern-sýslu, í maí á síðasta ári. Síðar mat dómari sem svo að Daníel væri ekki í ástandi til þess að réttað yrði yfir honum og var hann fluttur á sjúkrastofnun þar sem hann hlaut viðeigandi aðhlynningu.
Mál Daníel lá því í dvala í tæpt ár en var tekið upp að nýju þegar geðlæknir úrskurðaði að hann væri reiðubúinn að svara til saka í málinu. Síðastliðinn miðvikudag úrskuraði síðan dómari, eftir mat á sönnunargögnum málsins, að Daníel yrði ákærður fyrir morðið.
Daníel, sem er fæddur árið þann 20. júlí 2000, á íslenskan föður og tékkneska móður. Hann flutti ungur með móður sinni til borgarinnar Ridgecrest í Kaliforníu, nánar tiltekið til borgarinnar Ridgecrest í Kern-sýslu.
Daníel hefur neitað sök í málinu en mun fá tækifæri til að taka afstöðu til ákærunnar þegar hún verður gefin út síðar í mánuðinum.
Pham og Daníel þekktust ágætlega en þau höfðu verið bekkjarfélagar í Burroughs High School þaðan sem þau útskrifuðust árið 2018. Stjúpfaðir Daníels á að hafa tjáð lögreglu að þau hafi átt í stuttu ástarsambandi. Morguninn áður en morðið átti sér stað hafi hann heyrt að þau væru hætt saman.
Í umfjöllun svæðismiðils um morðið í fyrra kom fram að í gæsluvarðhaldi á Daníel að hafa játað á sig morðið. Þegar rannsóknarlögregluþjónn spurði hann hvað hafði gerst fyrir Pham á hann að hafa svarað: „Ég drap hana“.