„Mér finnst þetta í raun og veru sláandi munur,“ segir Valdimar Víðisson, skólastjóri Öldutúnsskóla, um muninn á stemningunni í samfélaginu fyrir EM kvenna í ár miðað við þegar karlalandsliðið keppti á mótinu árið 2016.
í færslu sem Valdimar birti á Facebook-síðu sinni í gær furðar hann sig á því að fyrirtæki hér á landi séu ekki að gera meira úr því að stelpurnar okkar eru að taka þátt. Hann segist hafa farið á heimasíður 5 stórfyrirtækja en ekki fundið neitt um EM þar.
„Stelpurnar okkar að taka þátt í EM. Frábær árangur. Árið 2016 tók íslenska karlalandsliðið þátt í sama móti. Þá var ekki þverfótað fyrir allsskonar EM tilboðum, Icelandair með sérstakar tilboðsferðir og fleira.
Fór inn á heimasíðu 5 stórfyrirtækja (raftæki, matvara og fleira) og ekki eitt af þeim að vekja athygli á EM. Á heimasíðu Icelandair er vakin athygli á flugferðum á HM karla í handbolta 2023.
Þetta er náttúrulega ekki hægt!“
Í samtali við DV um málið segir Valdimar að hann hafi ætlað að athuga hvort hann gæti fundið einhverjar pakkaferðir á EM hjá Icelandair en hann fann engar slíkar þar. „Ég var í gær að kanna hvort það væri eitthvað í boði en það fyrsta sem poppar upp á forsíðunni var tilboð á ferðum á HM karla í handbolta árið 2023. Það er vissulega eitthvað komið í dag fyrir EM en þetta var svo sláandi að ég fór inn á nokkrar vefsíður stórfyrirtækja sem ég veit að voru virk í EM tilboðum árið 2016 þegar strákarnir voru að spila,“ segir Valdimar.
„Ég fann bara ekkert, ég tek það fram að ég fór bara inn á nokkur stórfyrirtæki, ég veit að bankarnir eru eitthvað að vekja athygli á þessu og fleiri en þetta snýst um það að mér finnst að fleiri fyrirtæki þurfi að vekja athygli á mótinu. Það þarf að lyfta þessu svolítið upp, mér finnst það vanta.“
Valdimar segir að það sé nauðsynlegt að fyrirtækin sýni stelpunum áhuga til að ýta áhuganum á þeim upp. „Áhuginn á karlaboltanum er kannski meiri en það hjálpar ekki til ef það er ekki verið að lyfta kvennaboltanum upp, kveikja á þessu,“ segir hann.
„Ég man bara á EM 2016 að það var alltaf eitthvað í gangi allt mótið, ekki bara á leikdögum Íslands. Mér finnst þetta svo sláandi munur á EM karla og kvenna, mér finnst þetta pínu sorglegt.“