Deila hefur staðið yfir varðandi húsaleigu á Þórunnartúni 1 sem Fosshótel hafa haft til umráða. Eigandi húsnæðisins er Íþaka fasteignafélag en á meðan heimsfaraldur covid-19 stóð yfir framleigði íslenska ríkið eignina af Fosshótelum til þess að starfrækja þar sóttvarnarhótel.
Í forsíðufrétt Fréttablaðsins í morgun er greint frá deilum milli forsvarsmanna Fosshótela og forsvarsmanna Íþöku vegna húsaleigu á tímabilinu.
Í umfjölluninni kemur fram að Fosshótel vilji aðeins greiða helminginn af 440 milljón króna húsaleigu fyrir sex mánaða tímabil í fyrra eða 220 milljónir króna. Haft er eftir Pétri Guðmundssyni, eiganda Íþöku fasteignafélags, að á sama tíma hafi Fosshótel framleigt húsnæðið til íslenska ríkisins á 525 milljónir króna og að auki haft verulegar tekjur af veitingasölu til þeirra sem dvöldu í sóttvarnarhúsinu. Telur Pétur að sú upphæð nema yfir 300 milljónum króna.
„Þeir eru að fá yfir átta hundruð milljónir frá ríkinu fyrir leigu á hótelinu og veitingar en borga okkur bara eitthvað ríflega tvö hundruð milljónir,“ er haft eftir Pétri en Fosshótel bera því við að forsendubrestur hafi orðið vegna heimsfaraldursins og telja því lægri leigu réttmæta.