Um hádegisbil í dag bárust stjórnstöð Landhelgisgæslunnar upplýsingar um vélarvana fiskibát skammt frá landi norðan við Drangsnes á Ströndum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni.
Bátinn rak að landi en skipverjum tókst að stöðva rekið með því að setja út akkeri. Nálægur fiskibátur, Benni ST, hélt þegar til aðstoðar en að auki óskaði Landhelgisgæslan eftir aðstoð björgunarsveita á Hólmavík og Drangsnesi sem sendu björgunarbáta af stað til aðstoðar. Þyrlu Landhelgisgæslunnar sem var við æfingar í Húnaflóa var einnig beint á vettvang.
Fiskibáturinn Benni ST bjó sig undir að taka vélarvana bátinn í tog en þar sem skipstjóri Benna ST var bara einn um borð var ákveðið að senda stýrimann þyrlunnar um borð í Benna ST, skipstjóra hans til aðstoðar við björgunaraðgerðir. Dráttataug var sett á milli bátanna og tókst Benna ST að draga vélarvana bátinn á frían sjó. Þar var stýrimaður þyrlunnar hífður aftur um borð í þyrluna en Benni ST hélt með vélarvana bátinn til hafnar á Drangsnesi.