Þann 25. ágúst verður fyrirtaka í sakamáli gegn ungri konu, sem fædd er árið 2003. Héraðssaksóknari hefur ákært hana fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás gegn konu sem er tveimur árum eldri. Atvikið átti sér stað fyrir utan verslun í Þorlákshöfn í mars árið 2019. Ljóst er því að rannsókn málsins hefur dregist mjög mikið.
DV hefur ákæruna í málinu undir höndum. Stúlkan er sökuð um að hafa veist að þolandanum með ofbeldi, slegið hana ítrekað í höfuðið með krepptum hnefa og sparkað í höfuð hennar eftir að hún féll í jörðina, þannig að höfuð hennar slóst utan í steinvegg. Afleiðingarnar af þessu urðu þær að konan hlaut mar á efra augnloki vinstra auga og hægri neðri kjálka, sem og verk í hnakka.
Héraðssaksóknari krefst þess að unga konan verði dæmd til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Konan sem varð fyrir árásinni gerir einkaréttarkröfu og krefst einnar milljónar króna í miskabætur.