Tíu ára stúlku var neitað um þungunarrof í heimaríki sínu Ohio í síðustu viku, aðeins nokkrum dögum eftir að Hæstiréttur Bandaríkjanna sneri við dómafordæmi sem hafði staðið óhaggað í hálfa öld, Roe gegn Wade.
Dómurinn hindraði ríki Bandaríkjanna í að setja lög sem bönnuðu eða takmörkuðu verulega aðgengi kvenna að þungunarrofi.
Slík lög tóku hins vegar gildi í ýmsum ríkjum sama dag og dómnum var snúið við, þar með talið í Ohio þar sem þungunarrof er nú óheimilt eftir sex vikur, en oft líða meira en sex vikur þar til konur yfir höfuð átta sig á því að þær eru óléttar.
Tíu ára stúlkan var gengin sex vikur og þrjá daga.
Fjallað hefur verið um málið í helstu fjölmiðlum Bandaríkjanna, þar með talið Huffington Post og the Guardian.
Læknir í Ohio sem sérhæfir sig í þjónustu við börn sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi vísaði stúlkunni til fæðingar- og kvensjúkdómalæknis í Indíana, næsta ríki vestur af Ohio.
Hins vegar er reiknað með því að þrengt verði að rétti kvenna og stúlkna til þungunarrofs í Indíana síðar í þessum mánuði en þingmenn ríksins koma saman þann 25. júlí sérstaklega til að fjalla um málið.
Læknar í ríkinu tala um að þeir finni fyrir mikilli fjölgun þeirra sem leita eftir þungunarrofi en eru búsettir í öðru ríki þar sem þungunarrof er nú óheimilt.
„Það er erfitt að ímynda sér að eftir aðeins nokkrar vikur munum við ekki geta veitt þessa þjónustu,“ segir Dr. Caitlin Bernard, læknirinn í Indíana sem tók á móti stúlkunni.