Þrír eru látnir og fjórir alvarlega særðir eftir skotárás í verslunarmiðstöðinni Field’s í Kaupmannahöfn síðdegis í dag. Tveir hinna látnu eru danskir, 17 ára drengur og 17 ára stúlka, en að auki lést rússneskur ríkisborgari á fimmtugsaldri. Þá eru fjórir alvarlega særðir á sjúkrahúsi. Tveir Danir, fertug kona og önnur nítján ára sem og tveir sænskir ríkisborgarar, fimmtugur maður og 16 ára kona.
Gerandinn er 22 ára gamall Dani og telur lögreglan á þessari stundu að hann hafi verið einn að verki og ekki sé um skipulagt hryðjuverk að ræða. Á samfélagsmmiðlum er þó sá kvittur á kreiki að maðurinn hafi aðhyllst hægri öfgaskoðanir en hann hafi verið meðlimur í hægri öfgaflokkinum Stram Kurs. Þá hafi skotmaðurinn birt myndband af sér á Youtube þar sem hann stillti sér upp með skotvopnum.
Á blaðamannafundi lögreglunnar í morgun kom fram að maðurinn hafi notað rifil og skammbyssu til þess að fremja ódæðið. Vopnin hafi verið skráð á annan aðila og því hafi gerandinn líklega komist yfir þau með ólöglegum hætti.
Þá kom einnig fram að skotmaðurinn ætti sér sögu um andleg veikindi þó að lögreglan hafi ekki viljað fara nánar út í þá sálma. Þá hafði hann einnig áður komist í kast við lögin.
Vopnalöggjöfin í Danmörkur er ein sú strangasta í heiminum. Síðasta skotárás átti sem átti sér stað í Danmörku var árið 2015.