fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
Fókus

Hinn furðulegi lagarammi Norður-Kóreu – Ríkishár og eigin körfuboltareglur

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Sunnudaginn 3. júlí 2022 22:11

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

-Norður-Kóreu er með sitt eigið dagatal. Hjá okkur hinum er árið 2022 en þar í landi er aftur á móti árið 108. Tímatalið er nefnilega miðað við fæðingardag stofnanda ríkisins, Kim-Il Sung. Sá var fæddur 15. apríl 1912. Ekki er talin ástæða til að púkka upp á ár og aldir á undan þeim merka viðburði. Slík er dýrkunin að Kim-Il Sung að telst enn æðsti valdamaður landsins, titlaður ,,eilífðarforseti,” þrátt fyrir að að vera löngu látinn. 

-Almenningur í landinu hefur engan aðgang að farsímum, interneti, Netflix né öðru slíku sem við lítum sjálfsagt og eðlilegt. Í landinu er að finna eitt farsimakerfi en aðeins útvaldir flokksgæðingar eiga farsíma. Sama má segja um tölvur og rekur ríkið sitt eigið ,,internet”. Þar er að finna 28 vefsíður. Það er aftur á móti ekki allra að berja síðurnar augum.  Fæstir landsmanna eiga tölvur, bæði þarf sérstakt leyfi frá stjórnvöldum til kaupa á slíku tóli auk þess sem kostnaður við slíkt er út úr kortinu fyrir hinn almenna borgara. Það er reyndar til efs að síðurnar 28 séu þess virði. 

-Auk internetsins er erlend tónlist bönnuð, erlendar kvikmyndir og sjónvarpsefni, erlendar bækur, svo að segja allar erlendar vörur. Það er til að mynda stórglæpur að hringja til útlanda og varðar það margra ára fangelsi. 

Aðeins einn maður í landinu má klæðast leðri.

-Það er svo að segja útilokað að reyna að skapa sinn eigin stíl í landinu. Gallabuxur er til að mynda bannaðar svo og stuttbuxur, litaval á fatnað og sniðum er takmarkað og sídd kjóla bundin reglum. Reyndar er allt sem gæti flokkast sem ,,kynþokkafullt” harðbannað, hvort sem um er að ræða þröngar buxur, flegið hálsmál eða hvað annað sem stjórnvöld telja geta kveikt í fólki. Snyrtivörur eru einnig bannaðar. Stjórnvöld í Norður-Kóreu hafa aftur á móti lengi litið nágrannaríkið Suður Kóreu öfundaraugum vegna þeirra gríðarlegu tekna sem það aflar af framleiðslu snyrtivara og því hafið eigin snyrtivöruframleiðslu til útflutnings. Þær vörur hafa ekki fengið góðar undirtektir hjá áhugafólki um fegrun og þá er vægt til orða tekið. Í besta falli eru þær gagnslausar en alltof oft hættulegar, framleiddar úr alls kyns varasömum efnum, sem geta haft alvarleg áhrif á heilsu. 

Þess má bæta við að bæði leðurjakkar og hornspangargleraugu er með öllu bönnuð. Ástæðan er sú að leiðtoginn er elskur að hvoru tveggja og vill sennilega engan samanburð. 

Hinar samþykktur ríkisklippingar

-Ríkið sér einnig ástæðu til að stjórna hvernig fólk klippir hár sitt og hafa konur val um fimmtán tegundir klippinga sem samþykktar hafa verið af hinum háu herrum. Ógiftar konur þurfa þó ekki að hafa áhyggur af alvarlegum valkvíða þar sem þær mega aðeins velja hinar styttri. Karlmenn hafa aftur á móti þann lúxus að geta valið á milli 28 hárstíla. Það þarf vart að taka fram að harðbannað er að lita hár sitt.

-Það þarf sérstakt leyfi til að búa í höfuðborginni Pyongyang og er slíkt aðeins fjarlægur draumur fyrir sauðsvartan almúgann. Aðeins þeir sem njóta velvilja stjórnvalda mega búa í borginni. Þeir sem þar búa hafa það heldur skárra en aðrir landsmenn, búa betur og hafa aðgengi að betri fæðu og heilbrigðisþjónustu en samlandar þeirra á landsbyggðinni. Þetta vita borgarbúar mæta vel og gæta þess vandlega að tapa ekki þessum einstöku forréttindum. Það vakti því athygli heimspressunar í ársbyrjun þegar að því fréttist af veggjakroti í borginni enda slíkt algjörlega  óásættanlegt og reyndar óþekkt. Til að bæta gráu ofan á svart var um að ræða gagnrýni á sjálfan leiðtogann, Kim Jong-un.

Stjórnvöld gripu eðlilega til þess eina ráðs sem í stöðunni var sem var að krefja alla borgarbúa um rithandarsýnishorn svo unnt væri að finna glæpamanninn. Ekki er vitað hvernig til tókst.

-Hinn ástsæli leiðtogi, Kim-Jong un, er afar hrifin af körfubolta sem hefur meðal annars sýnt sig í fremur sérkennilegu sambandi hans við bandaríska körfuboltakappann fyrrverandi, Dennis Rodman. Stjórnvöld hata Bandaríkin,og allt sem frá því landi kemur af ástríðu, en þrátt fyrir þjóðernið er Rodman einn örfárra Vesturlandabúa sem boðnir eru velkomnir til landsins og jafnvel hampað. En eins og svo margt annað vill Norður Kórea gera hlutina öðruvísi en aðrir og því bjó Kim karlinn til nýjar körfuboltaboltareglur sem spilað er eftir þar í landi.

Af hverju honum hugnuðust ekki alþjóðlegar reglur íþróttarinnar er ekki vitað en samkvæmt fyrirmælum leiðtogans fást þar í landi þrjú stig fyrir troðslu og átta stig fyrir hverja körfu skoraða á síðustu þremur mínútum leiks. 

-Stærstur hluti alþjóðasamfélagsins bannar öll viðskipti við Norður Kóreu og því hafa langflestar erlendar vörur í landinu ratað þangað eftir vafasömum leiðum. Meðal þess sem mikill skortur er á gróðuráburður. Uppskera er rýr og á ríkið á í mestu erfiðleikum með að brauðfæða íbúa sína enda sett í forgang að fæða herinn. 

Til að bæta úr áburðarskortinum hefur verið gripið til þess ráðs að nota mannaskít og þegar sérlega illa árar er það skylda íbúa að safna saur sínum og afhenda yfirvöldum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Móðir segir Ísland ekki lengur barnvænt og kallar eftir hugarfarsbreytingu – „Þetta er alvarlegt vandamál. Við þurfum hjálp!“

Móðir segir Ísland ekki lengur barnvænt og kallar eftir hugarfarsbreytingu – „Þetta er alvarlegt vandamál. Við þurfum hjálp!“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Ómar leitar að leigjanda yfir jólahátíðina fyrir 600 þúsund krónur

Ómar leitar að leigjanda yfir jólahátíðina fyrir 600 þúsund krónur
Fókus
Fyrir 3 dögum

Ragnhildur segir að þessi spurning valdi fólki miklum kvíða um jólin

Ragnhildur segir að þessi spurning valdi fólki miklum kvíða um jólin
Fókus
Fyrir 3 dögum

Búllukóngur selur 330 milljóna króna höll á Arnarnesinu

Búllukóngur selur 330 milljóna króna höll á Arnarnesinu