fbpx
Mánudagur 20.janúar 2025
Fréttir

María furðar sig á því að hundahald sé „stranglega bannað“ á N1-mótinu – „Þetta er bara glatað“

Máni Snær Þorláksson
Föstudaginn 1. júlí 2022 11:41

Til vinstri: Dóttir Maríu ásamt Flóka, mynd/Aðsend - Til hægri: Mynd frá N1-mótinu, mynd/Auðunn Níelsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

María Hjálmarsdóttir, móðir drengs sem keppir um þessar mundir á N1-mótinu á Akureyri, var í gær stödd á mótsvæðinu ásamt dóttur sinni og hundi þeirra, Flóka, þegar hún fékk miða frá mótshöldurum. Á miðanum stóð að hundar væru „stranglega bannaðir“ á svæðinu þar sem upp hafa komið atvik um bæði ofnæmisviðbrögð og ofsahræðslu barna.

„Þetta er svolítið skrýtið. Á sumum tjaldsvæðum og svona eru hundar ekki leyfðir en það er aldrei notað neitt svona orðalag til þess að réttlæta það,“ segir María í samtali við DV um málið.

María og fjölskylda hennar eru nýkomin af öðru knattspyrnumóti, Orkumótinu í Vestmannaeyjum, en þar mátti vera með hundinn á svæðinu. „Hann var alls staðar við hlið okkar á mótinu, auðvitað alltaf í bandi. Það er enginn með lausa hunda hérna,“ segir hún.

Það kom því Maríu á óvart að fá miðann frá mótshöldurum en hún furðar sig á því hvað hundar eru ekki velkomnir víða í samfélaginu „Þetta er bara alveg ótrúlegt, ég er bara glænýr hundaeigandi og það kom mér bara svo rosalega óvart hvað hundar eru óvelkomnir á mörgum stöðum, ég var bara í sjokki,“ segir hún.

Dóttir Maríu ásamt Flóka á mótssvæðinu – Mynd/Aðsend

Missa af leikjum vegna bannsins

María segir að hún hafi ekki vitað af því að hundar væru bannaðir á N1-mótinu og því var Flóki með þeim allan fyrsta daginn. „Það voru  nokkrir aðrir hundar fyrsta daginn og ekkert mál, allir bara að virða allt og voru með þá í bandi. Þeir sátu bara hjá eigendunum alls staðar. Þeir sem eiga hunda sem eru óöruggir, þeir eru ekkert að fara með þá út. Ég hitti nokkra sem voru með hundinn úti í bíl og fóru alltaf að kíkja á hann, það var bara því þeir voru hræddir við bolta eða læti. Þá voru þeir bara úti í bíl, eigendurnir þekkja hundina,“ segir hún.

„Svo var bara gengið upp að okkur á degi tvö, ungir drengir í N1 jakka með miða, og við vinsamlegast beðin um að fjarlægja Flóka. Við vorum bara á hliðarlínunni þar sem aðstandendur eru að horfa og hann alveg sallarólegur. Svo var náttúrulega mikill hiti í gær, hann gat ekkert verið inni í bíl þannig ég missti af nokkrum leikjum. Þetta er bara glatað, ég fór á tjaldsvæðið og þar var fólk einmitt líka með hundana sína að tala um að það þyrfti að skipta leikjunum á milli sín, það gæti ekki séð alla leikina hjá strákunum sínum.“

Hundurinn Flóki – Mynd/Aðsend

„Algjörlega fáránlegt“

María segir að knattspyrnufélögin hafi fengið skilaboð um kvöldið eftir fyrsta daginn þar sem tekið var fram að hundar væru stranglega bannaðir á svæðinu. Hún furðar sig á því að hundar séu bannaðir með öllu, frekar en að það sé ítrekað að þeir eigi að vera í bandi. „Þetta með ofnæmi og ofsahræðslu, þau ættu frekar að leggja áherslu á að hafa hunda í bandi og fara varlega ef einhver sýnir ofnæmiseinkenni,“ segir hún.

„Væntanlega eru þeir sem eru með hundaofnæmi ekki ofan í hundunum og ef einhver segir að barnið sitt sé óöruggt þá færir maður sig bara strax. Hundaeigendur eru nánast allir mjög vakandi yfir þessu, ef einhver sýnir einkenni eða er hræddur þá fer maður strax í burtu. Svo eru margir sem eru að sigrast á hræðslunni sem hafa komið til okkar, af því Flóki er svo rólegur, og spurt hvort barnið megi koma nálægt og klappa. Sem er bara ótrúlega jákvætt,“

Þá segir María að hundunum sem ferðuðust með fjölskyldunum sínum á mótið leiðist að komast ekki út á meðan leikir barnanna eru í gangi „Þeir verða náttúrulega hundleiðir á að hanga hérna bara inni í búri eða í skottinu. Maður kemur hingað sem fjölskylda og hundurinn er partur af fjölskyldunni,“ segir hún.

„Það eru allir bara að fara út í skott og kíkja á hundana, þetta er bara hrikalegt, algjörlega fáránlegt,“ segir María að lokum.

Reglurnar skýrar

Siguróli Sigurðsson, einn af mótsstjórum N1-mótsins, ræddi við blaðamann um málið en hann segir reglurnar um hundahald á mótinu vera skýrar.

„Reglurnar okkar eru afskaplega skýrar og hafa verið í fjölda ára, að athygli mótsgesta er vakin á því að allt hundahald er stranglega bannað á KA-svæðinu á meðan á mótinu stendur. Þetta er tekið fram í handbók mótsins, blaðinu og á vefsíðunni þannig þetta ætti ekki að koma neinum á óvart,“ segir hann.

Um ástæðuna fyrir þessari reglu segir Siguróli að um varúðarráðstöfun sé að ræða.

„Þetta stafar af því að hér gætu bæði verið einhverjir sem eru með mikið ofnæmi eða mjög hræddir við hunda. Það er rosalega mikil umferð á svæðinu hjá okkur og þetta á bara að vera öllum til hagsbóta, það er markmiðið með þessu. Svipað og hvers vegna við erum með skólana hnetulausa þar sem krakkarnir gista, þetta er varúðarráðstöfun.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Samfylkingin fær á baukinn: Segir að kjósendur séu hafðir að fíflum

Samfylkingin fær á baukinn: Segir að kjósendur séu hafðir að fíflum
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Verður Áslaug Arna næsti formaður Sjálfstæðisflokksins?

Verður Áslaug Arna næsti formaður Sjálfstæðisflokksins?
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Móðir keypti pennaveski fyrir dætur sínar á Shein – Dauðbrá þegar hún sá hvað var í því

Móðir keypti pennaveski fyrir dætur sínar á Shein – Dauðbrá þegar hún sá hvað var í því
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Tálbeituhópurinn: Maður á Akranesi þungt haldinn eftir misþyrmingar með járnkylfum og hnífi

Tálbeituhópurinn: Maður á Akranesi þungt haldinn eftir misþyrmingar með járnkylfum og hnífi