fbpx
Sunnudagur 24.nóvember 2024
Fréttir

Kvennaathvarfið tilkynnir til barnaverndar – „Drengurinn hefur talað af miklum ótta um kynföður“

Erla Hlynsdóttir
Föstudaginn 1. júlí 2022 09:02

Lögreglubíll við spítalann þegar aðfarargerðin fór fram. Fréttablaðið/Anton Brink

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Rík ástæða er til þess að tilkynna barnaverndarnefnd um viðvarandi ótta drengsins við kynföður sinn og þann möguleika á að hann yrði færður til hans gegn eigin vilja.“

Þetta segir í upphafi tilkynningar sem Kvennaathvarfið sendir til barnaverndarnefndar í því sveitarfélagi þar sem búsettur er faðir 10 ára drengsins sem var fjarlægður af Barnaspítala Hringsins í byrjun mánaðarins og hann fluttur til föður síns.

Tilkynningin er send þremur dögum eftir aðfarargerðina á Barnaspítalanum.

DV greindi frá því fyrr í vikunni að drengurinn hafi ekki hitt móður sína frá því hann var færður frá spítalanum af lögreglu og fulltrúa sýslumanns þann 2. júní og samkvæmt nýjum dómi Landsréttar um umgengni fái þau mæðgin ekki að hittast fyrr en í október.

Sjá einnig: Fær ekki að hitta son sinn sem var tekinn af henni á Barnaspítalanum fyrr en í október

Í gær greindi DV síðan frá því að lögmaður föður segi að úrlausnir dómstóla vegna ágreinings móður og föður tali sínu máli. Hún segir ennfremur að umbjóðandi hennar beri hagsmuni barna sinna fyrir brjósti og vildi ekki ræða persónuleg málefni þeirra í fjölmiðlum.

„Þess má þó geta að drengnum líður mjög vel og þeir feðgar glaðir að fá að verja loks tíma saman,“ segir Auður Björg Jónsdóttir, lögmaður föður, en drengurinn var áður búsettur hjá móður.

Sjá einnig: Lögmaður föður drengsins sem var fjarlægður af Barnaspítalanum – „Þeir feðgar glaðir að fá að verja loks tíma saman“

Í tilkynningu Kvennaathvarfsins segir ennfremur: „Drengurinn hefur talað af miklum ótta um kynföður og þá hræðslu sína að vera neyddur til að búa á heimili hans þrátt fyrir að hann hafi ítrekað rætt við ýmsa fagaðila um eigin afstöðu sína um að vilja ekki búa hjá kynföður.“

Þá kemur þar fram að aldrei hafi verið rætt við drenginn að móður viðstaddri.

Sjö klukkustunda aðgerð

Mikill viðbúnaður var við Barnaspítalann þann 2. júní vegna aðfarargerðar til að uppfylla umgengnisrétt föður.

Um var að ræða sjö klukkustunda aðgerð þar sem byrgt var fyrir glugga á spítalanum, umferð á göngum stöðvuð og heyra mátti öskur í drengnum sem mótmælti því að fara til föður síns. Á staðnum kom einnig til háværra orðaskipta milli þeirra sem stóðu að aðfarargerðinni og svo aðstandenda barnsins.

Sagði frá viðvarandi ofbeldi

Í tilkynningu Kvennaathvarfsins til barnaverndarnefndar segir að drengurinn skilji ekki þá „illsku fólks“ að hlusta ekki á það sem hann vill og skilur enn síður þá staðreynd að hann verði mögulega „neyddur“ til að búa hjá kynföður.  Einnig segir þar: „Hvað varðar ofbeldisbeitingu kynföður hefur drengurinn sagt frá ítrekaðri og viðvarandi ofbeldisbeitingu hans á fyrrum heimili þeirra.“

Í lok tilkynningar segir:  „Drengurinn hefur upplifað veröld sína sem hættustað undanfarið vegna þeirrar ógnar sem hann hefur upplifað að steðji að honum í framhaldi af niðurstöðu Landsréttar og Hæstaréttar þess efnis að honum beri að búa hjá kynföður.“

Upphaflega dæmdi héraðsdómur móður fulla forsjá yfir báðum börnum þeirra, 10 ára dreng og 14 ára stúlku. Umgengni drengsins við föður átti að vera takmörkuð og drengurinn mátti ekki að gista hjá honum en engin umgengi átti að vera milli dóttur og föður.

Úr dómsorði héraðsdóms.

Þá sagði Auður, lögmaður föður, í gær að umbjóðandi hennar telji að almenningur hljóti að átta sig á því að frásögn konunnar, og þeirra sem tala hennar máli í fjölmiðlum sé ekki rétt „…enda væru niðurstöður dómsmála aðila ekki þær sem þær eru ef svo væri. Þá eru líklega fáir sem trúa því að hlutlausir sálfræðingar, sérfræðingar og dómarar sem að málunum hafa komið séu ekki starfi sínu vaxnir eins og að er látið liggja og jafnvel fullyrt.“

Sálfræðingar „gerast hlutdrægir með föður“

Móðir er ein tíu mæðra sem kvartað hafa til embættis landlæknis vegna „ófaglegra vinnubragða og hlutdrægni sálfræðinga sem taka að sér hlutverk dómkvaddra matsmanna og sérfróðra meðdómsmanna í forsjármálum.“

Í tilkynningu sem samtökin Líf án ofbeldis sendu frá sér á sínum tíma vegna málsins sagði að kvartanirnar snúi að meintum afglöpum sálfræðinganna í störfum sínum. Þau hafi litið fram hjá mikilvægum gögnum sem sýni vanrækslu og ofbeldi en einnig snúist kvartanir um framkomu matsmanna við mæður og/eða börn þeirra sem og vinnubrögðum þeirra við forsjárhæfnismat.

„Í öllum málunum má finna þann samnefnara að umræddir sálfræðingar taka ekki tillit til ofbeldis sem mæður og börn greina frá, og gögn sýna fram á, og gerast hlutdrægir með föður sem hafnar því eða neitar að hafa beitt ofbeldi,“ segir í tilkynningunni sem send var út í maímánuði.

Sjá einnig: Tíu mæður lýsa „ófaglegum vinnubrögðum og hlutdrægni“ þessara matsmanna í forsjármálum og leita til Landlæknis

Þá fékk móðir nálgunarbann á barnsföður í mars 2020 eftir að hún hafði gefið skýrslu hjá lögreglu um að hann hefði beitt hana líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi.

Tilkynningu Kvennaathvarfsins til barnaverndarnefndar í heild sinni má lesa hér:

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Pútín-skandall í Moskvu – Tík!

Pútín-skandall í Moskvu – Tík!
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Virknin í gosinu stöðug – Hraunið á bílastæði Bláa Lónsins enn á hreyfingu

Virknin í gosinu stöðug – Hraunið á bílastæði Bláa Lónsins enn á hreyfingu