Nú er rabarbarinn byrjaður að spretta upp víðast hvar þá er lag að nýta hann í sælkerauppskriftir og njóta. Kristín Edwald hæstaréttarlögmaður og eldhúsdrottningin okkar með meiru kann svo sannarlega til verka þegar töfra á kræsingar úr rabarbaranum. Kristín er mikill matgæðingur, bæði listakokkur og bakari. Á sínum tíma ljóstraði hún upp þessum dýrindis uppskriftum á matarvef þáttarins Matur og Heimili á Hringbraut sem ávallt er jafngóðar og gildar og standa tímans tönn.
Hér má sjá uppskriftirnar hennar Kristínar en Kristín leggur áherslu á að muna þarf að sjóða allar krukkur og lok í að minnsta kosti 10 mínútur og láta kólna áður en þær eru notaðar.
Rabarbarasýróp
Kristín notar það til dæmis út á jógúrt, ab-mjólk og grauta, í drykki og út á ís.
5 bollar niðurskorinn rabarbari
1 bolli vatn
1 bolli sykur
Soðið saman í smá stund og látið renna í gegnum fínt sigti eða klút. Sett í hreinar krukkur og geymt í kæli.
Rabarbari í pækli
Kristín notar hann í salat og sem meðlæti.
Niðurskorinn rabarbari
2-3 bollar vatn
1 msk. salt
2 msk. agavesýróp
½ bolli eplaedik.
Öllu blandað saman í skál og látið standa í u. þ. b. klukkustund. Rabarbaranum er síðan þjappað þétt í hreina krukku og pæklinum hellt yfir. Lokið krukkunni og látið standa á borði í 5-7 daga en svo í kæli.
Rabarbarakaka
3 bollar niðurskorinn rabarbari
malaður engifer
4 msk. hunang
1 bolli haframjöl
1 bolli hveiti, spelt eða annað mjöl
1-2 msk.
3 msk. kanill
kókosolía eða smjör
Rabarbarinn látinn malla smá stund í potti með möluðum engifer og hunangi. Blandan sett í ofnfast mót. Deigið er hnoðað gróflega saman og því svo dreift dreift yfir. Bakað við 190 gráður þar til liturinn er fallegur, í um það bil 25-30 mín. Ís eða rjómi er ómissandi með.
Rabarbara- og jarðarberjasulta
3 bollar niðurskorinn rabarbari
1 ½ bolli jarðarber skorin í helminga
1 bolli sykur
1 msk. ferskur sítrónusafi
Setjið allt saman í pott og sjóðið á meðalhita. Hrærið reglulega í þar til rabarbarinn hefur losnað í sundur og blandan hefur þykknað. Kælið og setjið í hreinar krukkur.