Í dag hóf netverslunin Heimkaup dreifingu á bjór, léttvíni og öðru áfengi í heimsendingu. Þetta eru ákveðin tímamót þar sem Íslendingar geta nú keypt áfengi og matvöru í sömu versluninni.
„Þetta eru tímamót að mörgu leyti og ánægjulegt að geta boðið viðskiptavinum okkar upp á þessa eðlilegu og sjálfsögðu þjónustu fram á kvöld á virkum dögum og báða helgardagana að auki. Það er löngu tímabært að bjóða upp á úrval af bjór og léttum vínum í vefverslun okkar og ég er viss um að viðtökurnar verða góðar,“ segir Pálmi Jónsson, forstjóri Heimkaupa, í tilkynningu sem send var á fjölmiðla í dag.
Þar sem einungis erlend fyrirtæki mega selja áfengi í netverslunum og senda hingað til lands er það danska fyrirtækið Heimkaup ApS sem selur áfengið. Heimkaup (Wedo ehf) sér um dreifinguna á því og öllum öðrum vörum sem seld eru í netversluninni Heimkaup.is.
Pálmi segir að Heimkaup séu með strangt eftirlit hvað varðar áfengissöluna en viðskiptavinir þurfa að samþykkja söluna með rafrænum skilríkjum til að kaupa áfengi. „Aðeins aðilar sem geta sýnt fram á löglegan aldur með skilríkjum fá hana afhenta,“ segir Pálmi.