Hún vekur athygli á þessu vandamáli – sem margir Íslendingar hafa kvartað yfir – að það sé erfitt að komast til síns heima eftir djammið í miðbæ Reykjavíkur.
„[Það] fylgja því margvíslegar hættur að stór hópur fólks sitji fastur einhvers staðar um miðjar nætur gegn vilja sínum. Fólk tekur til eigin ráða og sest ölvað undir stýri eða upp í bíla með ókunnugum. Þau sem kjósa að ráfa heim á leið fótgangandi geta átt á hættu að deyja úr kulda en hætta á því eykst verulega í ölvunarástandi á vetranóttum. Þá er stöðug ófriðarhætta yfirvofandi meðal þeirra sem hanga saman í röðinni, mun lengur en þau hafa þol til.“
Aðalheiður segir að það komi sér á óvart hve litlum forgangi málið hefur verið af hálfu yfirvalda. „Og jafnvel hve erfitt hefur reynst að fá það viðurkennt. Þegar Fréttablaðið kannaði málið snemma í vor vildi lögreglan ekki kannast við að hörgull væri á leigubílum. Næturröðin í Lækjargötunni væri ekkert lengri en venjulega,“ segir hún.
„Myndirnar af Birnu Brjánsdóttur að ganga upp Laugaveginn í janúarkuldanum árið 2017 eru greiptar inn í huga okkar allra. Örlög hennar settu af stað háværar kröfur um aukið myndavélaeftirlit í miðborginni en ættu líka að vera áminning um hve mikilvægt er að veita unga fólkinu sem skemmtir sér í miðborginni góða þjónustu og öruggar samgöngur.“