Ghislaine Maxwell hefur verið dæmd í 20 ára fangelsi fyrir að aðstoða Jeffrey Epstein við að misnota ungar stúlkur. Ein af þeim stúlkum sagði í réttarsal að Maxwell ætti skilið að dúsa í fangelsi það sem eftir væri.
Maxwell, sem er sextug, var í desember dæmd fyrir að finna og tæla fjórar unglingsstúlkur þannig að Epstein gæti misnotað þær, en hann var þá kærasti Maxwell. Hún átti yfir höfði sér allt að 55 ára dóm fyrir mannsal á fjölda ungra stúlkna allt niður í 14 ára aldur.
Glæpir Maxwell áttu sér stað á árunum 1994 og 2004.
Kynmök með ríkum og frægum
Maxwell greiddi stúlkunum yfirleitt um 200 dollara fyrir að ,,nudda“ Epstein nakinn. Hann átti síðan mök við stúlkurnar og tók Maxwell oft á tíðum þátt í misnotkuninni. Hún greiddi einnig nokkrum unglingsstúlkum fast verð fyrir hverja ,,nýja“ stúlku sem komið var með í glæsihýsi Epstein í Flórída og New York til misnotkunar. Stúlkurnar hafa borið þess vitni að hafa einnig verið látnar stunda kynmök með ríkum og frægum vinum Epstein og Maxwell og er Andrés Bretaprins líklegast þeirra þekktastur.
Epstein og Maxwell flugu einnig með stúlkur um borð í einkaflugvél Epstein til einkaeyju hans, Little St. James, sem tilheyrir bandarísku Jómfrúareyjunum. Flugvélin var oft kölluð ,,Lolita Express“, með tilvísan í ungan aldur stúlknanna, og eyjan ,,Pedophile Island“ eða ,,Barnaníðingseyjan.“ Ásókn Epstein í ungar stúlkur var nefnilega vel þekkt leyndarmál í heimi hinna ríku og frægu þótt fæstir hafi sennilega vitað um umfang glæpa þeirra hjúa.
Meðal þeirra sem flugu í einkaflugvélinni til eyjarinnar voru til að mynda forsetarnir fyrrverandi Donald Trump og Bill Clinton og leikarinn Kevin Spacey. Engar sakir hafa þó verið bornar á þá.
Fædd inn í auð og völd
Ghislaine Maxwell er yngsta barn breska fjölmiðlakóngsins Roberts Maxwell. Hún var hans uppáhaldsbarn og ólst upp við ævintýraleg auðæfi. Fjölmiðlarisinn fannst aftur á móti drukknaður við snekkju sína árið 1991 og skömmu síðar kom í ljós að Robert Maxwell hafði stolið eftirlaunum 32 þúsund starfsmanna sinna.
Ghislaine Maxwell flúði hneykslið í Bretlandi og hélt til Bandaríkjanna þar sem hún kom sér vel fyrir í félagsskap stórefnafólks. Hún var vinsæl í samkvæmislífinu og brátt urðu hún og Epstein óaðskiljanleg. Hún átti ekki eftir að víkja frá hlið hans fyrr en við handöku hans. Maxwell og Epstein munu hafa verið elskendur en giftust aldrei þrátt fyrir að Maxwell hafi þrýst mjög svo á.
Epstein svipti sig lífi í fangelsi í Manhattan árið 2019 á meðan hann beið sinna eigin réttarhalda. Margar kvennanna sem biðu eftir að Epstein svaraði fyrir gjörðir sínar í réttarsal sögðust hafa orðið miður sín þegar hann svipti sig lífi. Hann hefði með því svikið þær um réttlæti.
Þeirra eina von var að Maxwell yrði látin svara til saka en hún fór í felur eftir handtöku Epstein í júlí 2019. Hún var handtekin í einu glæsihýsa sinna sléttu ári síðar, þó ekki fyrr en eftir að hafa reynt að hlaupa undan alríkislögreglumönnum.
Stórhert öryggi
Eftir fráfall Epstein var allt öryggi í kringum Maxwell stóraukið til að koma í veg fyrir að hún tæki einnig sitt líf eða jafnvel myrt. Þar sem Maxwell hafði umsjón með að ,,úthluta“ stúlkunum grunar marga að hún búi yfir upplýsingum um fjölda heimsþekktra, og marga valdamikilla, karlmanna sem hafi stundað kynlíf með stúlkunum. Við lögregluleitir í fjölda húsa þeirra Epstein og Maxwell kom í ljós að parið hafði myndavélar í öllum herbergjum húsa sinna og hafði samkvæmt starfsfólki allt að því þráhyggju fyrir að mynda allt sem þar fór fram.
Engar upptökur hafa aftur á móti fundist og Maxwell sennilegast eina manneskjan á lífi sem veit hvernig þær má nálgast. Margir töldu að Maxwell myndi bjóðast til að leggja fram upptökur gegn vægari dómi en svo mun ekki vera.
Með dómnum má segja að málinu sé að mestu lokið nema að ný gögn komi fram.
Maxwell forðaðist að horfa í augu kvennana meðan á vitnisburði þeirra stóð en áður en dómur féll bað Maxwell þolendur sína í fyrsta skipti afsökunar. Hún sagðist finna til með þeim og vona að fangelsisdómur hennar myndi færa þolendunum frið og lokun. Maxwell sagði það sína mestu eftirsjá í lífinu væri að hafa hitt Epstein. Sagði hún hann hafa blekkt sig jafn mikið og aðra.
Fæstir bera þó trúnað á þau orð.