Árið 2006 giftust þau Karen Sheratt og Peter Sheratt eftir að sú fyrrnefnda hafði skilið við fyrsta eiginmann sinn. Stuttu síðar átti sameiginlegur bankareikningur þeirra eftir að valda því að þau sögðu skilið við hvort annað og Peter flutti þá út frá heimili þeirra í Swansea. Parið skildi þó aldrei formlega.
„Hún sagði mér fullt af litlum lygum um það hvar hún var og hvernig hún væri. Sameiginlegu reikningarnir okkar voru alltaf tæmdir og ég var í miklum fjárhagserfiðleikum,“ segir Peter um tíma þeirra saman. „Þegar ég spurði hana út í peningavandamálin okkar forðaðist hún umræðuefnið og var köld, hún var alltaf að fela hluti frá mér.“
Árið 2012 kynntist Karen nýjum manni, Christopher Thomas, í gegnum stefnumótasíðu og einungis sjö mánuðum síðar giftust þau. Christopher segir að Karen hafi alltaf komið út eins og hún „væri með fullt af leyndarmálum“ en að ástin hafi blindað hann.
Hann hætti því að hugsa um þessi mögulegu leyndarmál en upp komst um svik Karenar árið 2013 þegar Christopher sá bréf frá Peter. Í því var Peter að sækjast eftir formlegum skilnaði við Kareni.
Peter lagði bréfið á eldhúsborðið og yfirgaf heimili þeirra í Swansea. „Þegar ég fann þetta bréf þá raungerðust allar áhyggjurnar mínar. Á því augnabliki vissi ég að allt sambandið okkar hafði verið lygi og hver veit hvaða fleiri lygar hún sagði mér,“ segir Christopher sem hafði ekki hugmynd um að Karen væri ennþá gift Peter.
Það kom Peter einnig í opna skjöldu þegar hann komst að því að Karen væri tvíkvænd. Þeir máttu þó ekki ræða við hvorn annan strax þar sem dómsmál fór í gang þegar upp komst um svik Karenar. Þegar málinu var lokið og Karen hafði verið dæmd í fjögurra mánaða fangelsi, höfðu þeir samband hvorn við annan og fengu sér bjór saman. Þar kviknaði vinátta þeirra sem varir enn í dag.
„Það gæti einhverjum fundist skrýtið að við náum svona vel saman en við eigum sameiginlega fyrrverandi eiginkonu. Það var frekar augljóst að við myndum verða vinir í langan tíma,“ segir Christopher.
The Sun fjallaði um málið.