Chelsea hefur áhuga á að fá Richarlison, sóknarmann Everton, til liðs við sig. Sky Sports segir frá þessu.
Hinn 25 ára gamli Richarlison skoraði tíu mörk í 30 leikjum Everton í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð.
Liðið átti afleitt tímabil og bjargaði sér frá falli úr ensku úrvalsdeildinni í næstsíðustu umferð.
Richarlison hefur verið orðaður frá Everton eftir að tímabilinu lauk og við stærri félög.
Tottenham er talið hafa áhuga á Brasilíumanninum og nú bætist Chelsea í kapphlaupið.
Richarlison hefur verið á mála hjá Everton frá því 2018. Þar áður lék hann með Watford.
Þá á hann að baki 36 landsleiki fyrir hönd Brasilíu. Hann hefur skorað í þeim fjórtán mörk.