Fulham hefur boðið 11 milljónir punda í Andreas Pereira, miðjumann Manchester United. Daily Mail segir frá.
Pereira hefur verið víða á láni undanfarin ár en hann stóð sig vel með Flamengo í heimalandi sínu, Brasilíu, á síðustu leiktíð.
Nú gæti hann loks farið endanlega frá Man Utd og hafa nýliðar Fulham áhuga.
Fulham komst upp úr ensku B-deildinni í fyrra og er því nýliði í ensku úrvalsdeildinni á komandi leiktíð.
Pereira er 26 ára gamall og kom inn í unglingastarf Man Utd árið 2012. Þar áður var hann hjá PSV í Hollandi.
Hann skrifaði undir sinn fyrsta atvinnumannasamning við Man Utd árið 2015. Sem fyrr segir hefur hann þó mikið farið á láni frá þeim tíma, til að mynda til liða á borð við Valencia og Lazio.