Óskar Örn Hauksson og Brynjar Gauti Guðjónsson gætu báðir verið á förum frá Stjörnunni. Þetta kom fram í hlaðvarpsþættinum Dr. Football.
Óskar Örn gekk í raðir Stjörnunnar frá KR fyrir tímabilið en hefur ekki fengið eins stórt hlutverk og hann hafði vonast eftir. Hjörvar Hafliðason, þáttastjórnandi, segir að hann gæti farið í FH.
„Garðabærinn er með annað verkefni í gangi og sagan segir að Óskar Örn sé á leiðinni í Hafnarfjörðinn. Hann ætlar ekki að taka þátt í þessu Garðabæjardóti þar sem er ekkert verið að nota hann,“ sagði Hjörvar.
Þá gæti Brynjar Gauti Guðjónsson verið á förum en það var ekkert sérstakt félag nefnt til sögunnar í því samhengi. FH-inga vantar hins vegar miðvörð og var því velt upp í Dr. Football hvort að FH ætti ekki að reyna að krækja í hann ásamt Óskari.
„Myndi ekki bara meika sense fyrir FH að taka hann?“ spurði Hjörvar í þættinum.